IKEA má ekki skrá „óæskileg“ bílnúmer

IKEA þarf að gera ýmsar breytingar á verklagi við skráningar …
IKEA þarf að gera ýmsar breytingar á verklagi við skráningar persónuupplýsinga á næstu vikum. Árni Sæberg

Persónuvernd hefur komist að þeirri niðurstöðu að skráning IKEA á bílnúmerum viðskiptavina sinna og jafnframt skráning á persónuupplýsingum þeirra sem eru á lista yfir þá sem fyrirtækið telur óæskilega í versluninni, brjóti í bága við lög.

Persónuvernd hafði áður úrskurðað í ágúst á síðasta ári að IKEA bæri að afmá upplýsingar um einstakling af umræddum lista eftir að kvörtun barst frá honum til stofnunarinnar. Fyrirtækið breytti ekki verkalagi við skráningu á listann í kjölfar fyrri úrskurðar. Um 30 einstaklingar eru á listanum og eru þeir í komubanni í versluninni.

Það var Persónuvernd sem hóf frumkvæðisathugun á því hvort vinnsla persónuupplýsinga í þágu eftirlits IKEA, með þeim sem sækja verslunina, samrýmdust lögum. Tilefni athugunarinnar var fjölmiðlaumfjöllun um nýjar öryggisráðstafanir þar sem fram kom að IKEA hefði sett upp myndavél við aðkomu að versluninni sem skannaði númeraplötur fólks þegar hún næmi númer hjá einstaklingi sem væri í komubanni í versluninni.

Segja upplýsingarnar áreiðanlegar

Í svarbréfi IKEA til Persónuverndar kom fram að tilgangur eftirlitsins væru eingöngu til að vernda hagsmuni fyrirtækisins gagnvart hugsanlegu ólöglegu athæfi. Hinum skráðu væri tilkynnti um skráninguna kæmu þeir í verslun og væri þeim þá gert að yfirgefa hana. Þá fullyrti lögmaður IKEA að upplýsingarnar á listanum væru áreiðanlegar og á hann væru eingöngu skráðir einstaklingar sem hefðu verið staðnir að þjófnaði í versluninni, hefðu gert tilraun til þjófnaðar, framið skemmdarverk, haft frammi ógnandi hegðun eða farið fram með ofbeldi. Dæmi væri þó um að einstaklingar væru færðir á listann ef öryggisdeildin sæi ástæðu til að fylgjast með þeim af einhverjum ástæðum. Skráning á listann sæti hins vegar reglulegri endurskoðun og dæmi séu um nöfn einstaklinga séu afmáð af honum ef ekki er lengur talin þörf á að vera á verði gagnvart viðkomandi.

Í svarbréfinu komu jafnframt fram upplýsingar um staðsetningu upptöku- og öryggismyndavéla. En þær eru staðsettar á þaki verslunarhúsnæðisins og við innkeyrslu að lóð IKEA. Sú upptökuvél tekur upp umferð bíla um hringtorg, en öll umferð inn á svæðið við Kauptún fer um hringtorgið. Sú vél getur greint bílnúmer í myrkri og hægt er að fylgjast með umferðinni í beinni á þar til gerðum eftirlitsskjám sem öryggisdeildin hefur aðgang að. 

Skráningu skal hætt fyrir 19. júní

Í vettvangsrannsókn starfsfólks Persónuverndar vegna athugunarinnar var þessi skráning bílnúmera skoðuð sérstaklega. „Sjá mátti að öryggiskerfi IKEA skráði sjálfkrafa bílnúmer þeirra sem óku um hringtorgið en upplýst var að bílnúmerin væru vistuð í kerfinu og geymd í eina viku. Kerfið væri ekki tengt við upplýsingar úr ökutækjaskrá. Hins vegar væri það tengt við fyrrnefndan lista yfir einstaklinga í komubanni í verslunina, og kom fram að þegar upptökuvélin greindi eitt þeirra bílnúmera sem þar væri vistað fengi öryggisstjóri eða aðstoðaröryggisstjóri IKEA sjálfkrafa sendan tölvupóst með fyrrnefndu yfirliti yfir viðkomandi einstakling sem bílnúmerið væri tengt við,“ segir í úrskurðinum.

Niðurstaða Persónuverndar er að þetta fyrirkomulag samræmist ekki lögum um rafræna vöktun og er þeim tilmælum beint til IKEA að breyta sjónarhorni, staðsetningu og stillingum eftirlitsmyndavéla þannig að ekki sé hægt að vakta svæði á almannafæri eða nærliggjandi lóðir. Sérstök vöktun og skráning bílnúmera samrýmist heldur ekki lögum og skal henni hætt eigi síður en 19. júní næstkomandi. Þá er einnig úrskurðað að skráning upplýsinga á lista yfir þá sem fyrirtækið telur ósæskilega sé ólögmæt. Henni þarf að breyta þannig að vinnsla persónuupplýsinga samræmist lögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert