Alþingi samþykkti tillögur ráðherra

Sigríður Á. Andersen
Sigríður Á. Andersen Eggert Jóhannesson

Alþingi samþykkti rétti í þessu tillögur Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra um skipan dómara í Landsrétt, með  31 atkvæði gegn 22 atkvæðum. 8 sátu hjá. Atvæði voru greidd með nafnakalli.

Fyrst var kosið um tillögu minnihlutans að vísa málinu aftur til ríkisstjórnarinnar, en hún var felld með gegn 31 atkvæði gegn 30 atkvæðum.

Tillögur dómsmálaráðherra voru aðrar en dómnefndarinnar, en hún lagði til fjóra aðra einstaklinga en nefndin taldi hæfasta. Rökin voru helst þau að hún vildi að reynsla af dómarastörfum hefði meira vægi í hæfnismati.

Málið sett í jafnréttisbúning

Nokkrir þingmenn gerðu grein fyrir atkvæði sínu og var stjórnarandstöðunni tíðrætt um að meirihlutinn væri að setja málið í óréttmætan jafnréttisbúning, í ljósi þess að fleiri konur eru á lista ráðherra en lista dómnefndar. Á lista ráðherra eru 8 karlar og 7 konur, en listi dómnefndar innihélt nöfn 10 karla og 5 kvenna.

Stjórnarandstöðuþingmenn sögðu hins vegar ekki hægt að tala um jafnréttissjónarmið í þessu tilfelli, enda hefðu breytingar ráðherra ekki eingöngu snúist um að færa konur upp listann og karla niður. Þingmenn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar minntust allir á að kynjajafnvægi væri jákvætt og sögðust treysta ráðherra til að hafa valið hæfasta fólkið og jafnframt tekið tillit til kynjahlutfalls. Þá væri gott að gefa dómarareynslu aukið vægi. Dómsmálaráðherra sagði að um tímamótaatkvæðagreiðslu væri að ræða.

Þingmenn Framsóknarflokksins sátu allir hjá í atkvæðagreiðslunni. Þeir sögðust ekki geta greitt atkvæði um tillögu ráðherra því hún væri ekki fullunnin. Þær væru hins vegar ekki á móti listanum sem slíkum, enda væri gott að taka tillit til reynslu af dómarastörfum.

Íhugar að kæra ríkið

Þeir fjórir sem voru á lista dómnefndar en komust ekki á lista ráðherra eru: Ást­ráður Har­alds­son, Eiríkur Jóns­son, Jóhannes Rúnar Jóhanns­son og Jón Hösk­ulds­son. Á lista ráðherra komu þeirra í stað: Arn­fríður Ein­ars­dótt­ir, Ásmundur Helga­son, Jón Finn­björns­son og Ragn­heiður Braga­dótt­ir.

Fréttablaðið greindi frá því í dag að minnsta kosti einn þeirra sem dómnefndin mat hæfasta í embætti dómara við Landsrétt, en Sigríður lagði ekki til, íhugi að kæra íslenska ríkið eða leita til umboðsmanns Alþingis vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert