„Þetta eru ósannindi og grófur rógur“

Verslun Costco í Garðabæ.
Verslun Costco í Garðabæ. mbl.is/Ófeigur

Finnur Árnason, forstjóri Haga, vísar því alfarið á bug að Hagar hafi hótað því að fjarlægja vörur íslenskra framleiðenda úr hillum verslana sinna, hyggist þeir selja vörur sínar í Costco.

Í frétt Viðskiptablaðsins í dag er greint frá því að nokkrum íslenskum framleiðendum hafi borist þau skilaboð frá Högum að vörur þeirra verði fjarlægðar úr hillum verslana keðjunnar, hyggist framleiðendurnir selja vörur sínar í Costco. Finnur segir að um sé að ræða ósannindi og róg.

„Þetta er bara ósannindi og rógur í mínum huga og ég hvet þá sem hafa orðið fyrir þessari reynslu, eða telja sig hafa orðið fyrir þessari reynslu, að snúa sér beint til samkeppniseftirlitsins,“ segir Finnur í samtali við mbl.is.

Finnur Árnason, forstjóri Haga, vísar ásökunum á bug.
Finnur Árnason, forstjóri Haga, vísar ásökunum á bug. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þvert á móti segir hann Haga reiðubúna að bregðast við þeirri auknu samkeppni sem tilkoma Costco hefur óneitanlega í för með sér. „Við bara erum að bregðast við þessari samkeppni og erum bara stoltir af því að geta boðið lægra verð á mjög mörgum sviðum,“ segir Finnur. „Við erum á þessum markaði og það er alveg ljóst að þetta hefur áhrif, það er engin spurning, en við bara erum að sinna okkar viðskiptavinum og teljum okkur gera það vel,“ bætir hann við.

„Þetta eru ósannindi og grófur rógur að mínu viti,“ ítrekar Finnur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert