Ráðherra ræddi óformlega við formenn

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segir deiluna um tillögu ráðherra snúast …
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, segir deiluna um tillögu ráðherra snúast um verklag ekki kynjasjónarmið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formenn þingflokkanna funda nú um það hvernig fyrirkomulagi um til­lögu Sig­ríðar Á. And­er­sen dóms­málaráðherra varðandi skip­an dóm­ara í Lands­rétt verði háttað. Þetta staðfestir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.  Hún kveðst þó ekki vita hvort enn standi til að sú umræða fari fram í kvöld.

„Ef þessi dómaramál hefðu ekki farið eins og þau fóru þá væri búið að afgreiða fjármálaáætlunina eins og til stóð,“ segir Katrín. „Það hefði verið gert í ágreiningi, en ekki hefði annað staðið til en að afgreiða hana.

Snýst um verklag ekki kynjasjónarmið

Samkvæmt heimildum mbl.is höfðu formenn  flokkanna viðrað þá skoðun að ekki væri hægt að samþykkja tillögu hæfisnefndarinnar um 10 karla og 5 konur. Katrín segir rétt að ráðherra hafa átt óformleg samtöl við formenn flokkanna áður en hún lagði fram tillögu sína. „Ég veit ekkert hvað fór fram milli hennar og annarra formanna, en ég sagði henni að mér þætti mikilvægt, og þetta var áður en tillagan kom fram, að það yrði skoðað að taka tillit til kynjasjónarmiða og það er í takt við það sem okkar þingmenn sögðu við atkvæðagreiðslu.“

Deilan nú snúist heldur ekki um kynjasjónarmið, heldur um vinnulagið í tillögu ráðherra um dómaraskipan og  að þar sé öllum málsmeðferðarreglum fylgt.

„Þetta snýst um verklagið,“ segir Katrín, ekki um það hvort tillaga hæfisnefndarinnar hefði verið studd í óbreyttri mynd. „Okkar gagnrýni lýtur að verklaginu og því að við höfum ekki fengið  nægjanlegt svigrúm til að fara yfir gögn málsins og við teljum að ráðherra hefði líka þurft lengri tíma til að undirbúa sinn rökstuðning, þannig að mér finnst ekki hægt að segja um það á þessum tímapunkti hvaða afstöðu ég hefði tekið til tillögunnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert