Forsetahjónunum boðið upp á „eitursveppi“

Forsetahjón Íslands og Finnlands í höll forseta Finnlands.
Forsetahjón Íslands og Finnlands í höll forseta Finnlands. Ljósmynd/Matti Porre, finnska forsetaskrifstofan

Forseti Íslands og forsetafrú eru þessa dagana í heimsókn í Finnlandi í tilefni af aldarafmæli sjálfstæðis landsins, en afmælishátíðin sjálf fór fram í gær. Á miðvikudaginn sátu forsetahjónin hádegisverðarboð finnsku forsetahjónanna auk þess sem Guðni Jóhannesson átti fund með Juha Sipilä, forsætisráðherra Finnlands, og Maria Lohela, forseta finnska þingsins.

Vakti það athygli að í hádegisboðinu var boðið upp á svokallaða steinkrympilsveppi með lambasteik, en nýlega var greint frá því að slíkir sveppir eru baneitraðir. Þeir þykja hins vegar herramannsmatur í Svíþjóð og Finnlandi séu þeir rétt meðhöndlaðir.

Í frétt á vef Hufvudstadsbladet er upplýst hvað var á matseðlinum.

Í forrétt var vatnsbolfiskur með dilli. Í aðalrétt var lamb með fyrrnefndum steinkrympilsveppum og möndlukartöflur með villijurtum. Í eftirrétt var svo boðið upp á jarðarber í líkjör og fil (mjólkurvara sem svipar til skyrs en er mýkri) með greninálum.

Fyrr í vikunni greindi RÚV frá því að steinkrympill hefði fundist hér á landi og var rætt við Bjarna Diðrik Sigurðsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, sem varaði við að sveppurinn væri borðaður. Hafði Bjarni áður spáð því að sveppurinn færi að nema land á Íslandi.

Sveppurinn er ómeðhöndlaður baneitraður og getur meðal annars valdið ólæknandi lifrarbilun. Með þurrkun er aftur á móti hægt að þurrka mest allt eitrið úr sveppnum, en í framhaldi er hann soðinn og afvatnaður þannig að eitrið fer með öllu. Sem fyrr segir þykir sveppurinn þó sælkeramatur í Svíþjóð, Finnlandi og Eystrasaltslöndunum. Haft er eftir Bjarna í frétt RÚV að nýjar rannsóknir sýni þó fram á að sveppurinn geti haft fleiri neikvæð áhrif, svo sem verið krabbameinsvaldandi og haft neikvæð áhrif á frjósemi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert