Læknum Hrafnistu sagt upp

Öllum föstum læknum Hrafnistuheimilanna hefur verið sagt upp störfum. Sex fengu uppsagnarbréf nú um mánaðamótin, en sá sjöundi, forstöðulæknirinn Sigurður Helgason, sagði sjálfur upp fyrir nokkru. Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistuheimilanna, staðfesti þetta í samtali við Morgunblaðið í dag. Hann sagði að samið hefði verið við Heilsuvernd, einkarekið fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu, að taka læknisstörfin yfir frá 1. september í haust.

Pétur sagði að læknunum yrðu boðin störf hjá Heilsuvernd en vissi ekki hvort þeir myndu þiggja það eða hvort starfskjör þeirra og vinnutími breyttust. Hann sagði að með þessari breytingu væri verið að bregðast við þeim vanda að erfiðlega gengi að fá afleysingalækna til starfa á Hrafnistu og hentugra þætti að annar aðili sæi um að tryggja að læknisþjónustan væri hnökralaus. Fyrirtækið Heilsuvernd hefði reynslu á því sviði. Ákvörðunin tengdist því að forstöðulæknir Hrafnistuheimilanna, sem er annar tveggja lækna heimilanna í fullu starfi, væri að hætta og fram undan væri opnun nýs hjúkrunarheimilis árið 2019.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert