Verðmat sumarbústaða hækkar um 38,7%

Fjöldi sumarhúsa er í Grímsnesi. Almennt hækkar mat sumarhúsa á …
Fjöldi sumarhúsa er í Grímsnesi. Almennt hækkar mat sumarhúsa á öllu landinu um 38%, en dæmi eru um að verðmatið allt að þrefaldist. www.mats.is

Fasteignamat sumarbústaða á landinu hækkaði um 38,7% í nýju mati sem kynnt var í dag, en ástæða þessarar miklu hækkunar er ný matsaðferð sem er meðal annars hugsuð til að ná fasteignamatinu nær raunverði eignarinnar. Þó algengasta hækkunin sé tæplega 40% er mikill fjöldi hækkar um 40-100% og þó nokkur dæmi um sumarhús sem hækka þrefalt, eða um yfir 200%. Þetta var meðal þess sem kom fram á kynningarfundi Þjóðskrár Íslands í morgun.

Háspennulínur lækka matsverð um 760 milljónir

Samkvæmt nýju matsaðferðinni er fjöldi breyta nú tekinn inn í verðmæti eignarinnar, meðal annars staðsetning og markaðsverð nærliggjandi sumarhúsa, nálægð við golfvelli og vötn og hvort að stórar háspennulínur séu innan við hálfan kílómetra frá sumarhúsinu. Er síðast nefnda atriðið metið til lækkunar, en hin tvö til hækkunar. Kom fram á kynningunni í dag að í heild væri mat sumarhúsa vegna nálægðar við háspennulínur 760 milljónum króna lægra en ef þær væru ekki til staðar.

Samhliða kynningunni í morgun var kynnt einfaldari aðferð fyrir sumarhúsaeigendur til að láta endurmeta eignir sínar. Er það nú gert með að senda inn lýsingu og myndir til Þjóðskrár. Fara matsmenn svo yfir myndirnar og önnur tiltæk gögn og ef engar spurningar standa eftir er nýtt mat afgreitt án þess að matsmaður þurfi að mæta á staðinn eins og verið hefur.

500 þúsund krónu fermetraverð í Kiðjabergi

Þá er búið að bæta við verðsjá fyrir sumarhús, en þar er hægt að skoða raunverð á kaupsamningum á ákveðnum svæðum og er ætlunin að auka gegnsæi á markaðinum. Kom meðal annars fram í kynningunni að hæsta fermetraverð sumarhúsa væri í Kiðjaberginu í Grímsnesi, en þar er það rétt undir 500 þúsund krónum. Hægt er að skoða þetta nánar á verðsjánni.

Þarfar breytingar en kalla á lægri fasteignagjöld

Sveinn Guðmundsson, formaður Landssambands sumarhúsaeigenda, segir í samtali við mbl.is að í sjálfu sér sé breyting Þjóðskrár gott og þarft verk til að fá raunstærðir inn í myndina þannig að sumarhús séu skráðar á raunvirði. Það sé meðal annars mjög mikilvægt ef upp komi tjón eða sumarhús brenni og sækja þurfi bætur til tryggingafélaga.

Hann bendir hins vegar á að þetta muni að öðru óbreyttu hafa áhrif til hækkunar á fasteignagjöldum sumarhúsa um allt land. „Að nálgast þetta svona er er mjög gott, en ég er samt uggandi að við séum að fara að borga hærri fasteignagjöld fyrir vikið,“ segir Sveinn.

Vill að löggjafinn setji hámark fyrir sumarhús

Hann segir í grunninn eigi auðvitað verðmat sumarhúsa að vera rétt, eins og reynt hafi verið að gera nú, en að leiðréttingin eigi ekki að felast í því að fasteignagjöld hækki, heldur þurfi að lækka stuðul fasteignagjalda til móts við hækkunina.

Þá kallar hann eftir því að löggjafavaldið setji hámark á það hlutfall sem sveitarfélög megi rukka á sumarhús sem ekki séu lögheimili. Í dag hafi þau rétt til að rukka alla fasteignaeigendur upp í 0,6 prósent af verðmæti eigna. Sum sveitarfélög nýti sér þetta að fullu og nefnir hann sem dæmi Bláskógabyggð. Sveinn segir sumarhúsaeigendur þó oft fá mun lakari þjónustu en þegar um lögbýli sé að ræða. Þannig borgi sumarhúsaeigendur oftast fyrir sorphirðu og séu með eigin rotþrær. Hann segir því eðlilega kröfu að hámarkshlutfall sem megi rukka af sumarhúsum verði lækkað í kjölfar þessarar matsbreytingar.

70% sumarhúsa hækkar um innan við 4 milljónir og 80% …
70% sumarhúsa hækkar um innan við 4 milljónir og 80% minna en um 6 milljónir. mbl.is/Súsanna Svavarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert