Boðið í skoðunarferð til Reykjavíkur

Skúlína segir að fólki hafi litist misjafnlega á það sem …
Skúlína segir að fólki hafi litist misjafnlega á það sem fyrir augu bar í Reykjavík. Sigurður Bogi Sævarsson

„Það eru allir búnir að fá uppsagnarbréfið, en fólk er með misjafnlega langan uppsagnarfrest. Flestir eru byrjaðir að líta í kringum sig, einhverjir eru komnir með vinnu og farnir,“ segir Skúlína Hlíf Guðmundsdóttir, trúnaðarmaður starfsmanna hjá HB Granda á Akranesi.

Þann 11. maí síðastliðinn tilkynntu forsvarsmenn fyrirtækisins trúnaðarmönnum þess að botnfiskvinnsla yrði lögð af frá og með 1. september. Við það missa 86 starfsmenn vinnuna og fengu þeir allir uppsagnarbréf undir lok maímánaðar.

Skúlína telur að um 10 til 15 manns séu komnir með vinnu nú þegar, bæði á Akranesi og á Grundartanga.

„Þeir bjóða fólki að koma og vinna í Reykjavík og það eru fáein störf hérna á Akranesi. Umsóknarfrestur um ný störf hjá fyrirtækinu er til 30. júní, þannig að ég veit ekki enn þá hvað fólk ætlar að gera,“ segir Skúlína. Ekki er þó ljóst hve mörg störf eru í boði, en HB Grandi hefur gefið það út að því starfsfólki, sem fær ekki vinnu við hæfi, muni bjóðast aðstoð við atvinnuleit á vegum fyrirtækisins.

Flestir vilja starfa á Akranesi

Í fyrradag fékk starfsfólk HB Granda á Akranesi að fara í skoðunarferð um starfsstöð fyrirtækisins í Reykjavík og segir Skúlína upplifun fólks hafa verið misjafna. „Þetta er auðvitað mjög stór staður þarna í Reykjavík. Fólk er á báðum áttum og það er augljóst að fæstir eru búnir að gera upp hug sinn. Þetta er hátt í klukkutíma keyrsla þangað niður eftir,“ bendir hún á.

Það getur valdið fjölskyldufólki erfiðleikum ef báðar fyrirvinnur þurfa að …
Það getur valdið fjölskyldufólki erfiðleikum ef báðar fyrirvinnur þurfa að vinna utanbæjar. mbl.is/Golli

Skúlína segist finna það á fólkinu að flestir vilji geta starfað áfram á Akranesi, alla vega þeir sem eldri eru og barnafólk. Þeim yngri og barnlausu þyki hins vegar minna mál að ferðast á milli til og frá vinnu. Hún veit þó ekki um neinn sem hefur ákveðið að flytjast á brott vegna uppsagnanna.

Það hafa ekki allir tök á að vinna utanbæjar

„Það geta samt ekki báðir aðilar unnið fyrir utan bæinn þegar um fjölskyldufólk er að ræða. Það er svo algengt að annar aðilinn sé nú þegar að vinna í Reykjavík eða á Grundartangasvæðinu. Þeir hjá HB Granda hafa sagt að því starfsfólki, sem fái vinnu í Reykjavík, muni standa til boða ferðir fram og til baka á vegum fyrirtækisins,“ segir Skúlína en bendir réttilega á að það stytti hins vegar ekki ferðatímann.

„Margar kvennanna, sem eru 45 ára og eldri, ætla að taka sumarfríið sitt og sjá hvað verður. Það er gott að hafa umhugsunarfrest til 30. júní og þeir segjast ætla að svara umsóknum skömmu eftir það. Flestir ætla þó ekkert að fara í annað fyrr en í september, taka sumarfrí og njóta þeirra réttinda sem þeir eiga inni.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert