„Samþykkjum aldrei loftlínu!“

Opinn fundur áhugafólks um ásýnd Skagafjarðar fór fram í Varmahlíð …
Opinn fundur áhugafólks um ásýnd Skagafjarðar fór fram í Varmahlíð í gær. Aðeins fulltrúar Vinstri grænna og óháðra þáðu boð um þátttöku í pallborðsumræðu á fundinum. Ljósmynd/Helga Rós Indriðadóttir

Landeigendur í Skagafirði munu ekki samþykkja lagningu loftlína, þ.á.m. Blöndulínu 3, um landareignir sínar. Að sögn Helgu Rós Indriðadóttur landeigenda var þetta skýr niðurstaða opins fundar áhugafólks um ásýnd Skagafjarðar sem fram fór í Varmahlíð í gær, en Helga stýrði fundinum.

Á fundinum kom fram að sveitarfélagið Skagafjörður vinni nú að breytingu á aðalskipulagi þar sem lagt sé til að setja stóriðjuloftlínur inn á skipulag, þrátt fyrir að Blöndulína 3 hafi verið tekin út af framkvæmdaáætlun þar sem Landsnet hyggist vinna umhverfismat fyrir línuna upp á nýtt. 

„Þeir [hjá Landsneti] eru búnir að segja að það þurfi að taka umhverfismatið upp þannig að það er í rauninni ekki þörf fyrir sveitafélagið að ákvarða um legu línunnar, hvar hún mun koma, þar sem að í umhverfismati þarf náttúrlega að meta þetta allt aftur,“ segir Helga í samtali við mbl.is.

Vilja að jarðstrengur verði skoðaður sem raunhæfur möguleiki

„Þetta mál er náttúrlega búið að standa yfir síðan 2008 en sveitarstjórn hefur áður bókað það að þeir vilji gjarnan fara að vilja heimamanna og að jarðstrengur verði skoðaður sem raunhæfur möguleiki,“ segir Helga. Núna sé hljóðið aftur á móti annað. „Núna taka þeir ekkert slíkt fram, […] nú vilja þeir ákveða hvora leiðina á að fara og nefna það ekkert að það þurfi að skoða jarðstrengi sem valkost.“

Var fundurinn vel sóttur, nema af hálfu fulltrúa stjórnmálaflokka í sveitarstjórn Skagafjarðar, en einungis fulltrúi Vinstri Grænna og óháðra þáði boð um setu í pallborði á fundinum. Hópur landeigenda í Skagafirði lagði fram ályktun vegna málsins á fundinum sem sjá má í heild sinni hér að neðan.

Samþykkjum aldrei loftlínu!

Landeigendur á línuleið Blöndulínu 3 ítreka enn og aftur að þeir munu aldrei samþykkja lagningu loftlínu um lönd sín.

Landeigendur hvetja sveitarstjórn Skagafjarðar til að láta af þeim fyrirætlunum að setja stóriðjuloftlínur inn á aðalskipulag. Það er augljós tímaskekkja í ljósi þess að Landsnet hefur tekið Blöndulínu 3 út af framkvæmdaáætlun og ætlar að vinna umverfismat fyrir línuna upp á nýtt, eins og Umhverfisráðuneytið og Skipulagsstofnun hafa þrýst á um. Í nýju umhverfismati verða jarðstrengir metnir sem valkostur og allar ákvarðanir um línuleiðir teknar til endurskoðunar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert