„Fleiri karlar ættu að taka þátt“

Haukur Þór Lúðvíksson og dætur hans tvær, Alexandra Rún Aðalheiðardóttir …
Haukur Þór Lúðvíksson og dætur hans tvær, Alexandra Rún Aðalheiðardóttir og Dagbjört Emilía Hauksdóttir Söebech. Ljósmynd/Bent Marinósson

„Ég hef mest verið að hlaupa sem áhugamaður, einn með sjálfum mér eða með nokkrum góðum hlaupafélögum mínum en langaði að gera eitthvað með börnunum mínum og þessi hugmynd kom að fara með þau í kvennahlaupið. Ég hringdi í dætur mínar og spurði hvort þær vildu taka þátt í kvennahlaupinu með mér en þær sögðu báðar að þær gætu ekkert hlaupið,“ segir Haukur Þór Lúðvíksson, sem hyggst hlaupa með dætrum sínum tveimur í kvennahlaupinu, þeim Alexöndru Rún Aðalheiðardóttur og Dagbjörtu Emilíu Hauksdóttur Söebech. 

Þau ætla að taka þátt í kvennahlaupinu sem er 18. júní og eru að koma sér í hlaupaform. Haukur tekur fram að bróðir þeirra, Hlynur Freyr Hauksson Söebech, er meira en velkominn með en verður upptekinn í vinnu á Ísafirði þegar hlaupið fer fram.

 „Hlaup er bara hlaup og er fyrir alla. Ég held að fleiri karlar ættu að taka þátt,“ svarar Haukur aðspurður hvernig það leggist í hann sem karlmann að taka þátt í kvennahlaupi. Hann bendir á að faðir hans hafi tekið þátt kvennahlaupinu með sinni konu og dætrum. Haukur vill fyrst og fremst vekja athygli á mikilvægi hreyfingar fyrir alla með því að taka þátt. Hann bætir því við að kvennahlaupið er tilvalið fyrir þá sem vilja byrja að hlaupa og er auk þess góð stund með fjölskyldunni.  

Hlaupaforrit nýtist vel

Systurnar sem fram að þessu hafa ekki verð í ýkja miklu hlaupaformi hafa stuðst við hlaupaáætlun í snjallsímaforritinu, Couch to 5k, eða úr sófanum yfir í 5 kílómetra hlaup sem eflaust margir Íslendingar þekkja. Þær láta vel af forritinu og segjast hafa farið nokkrum sinnum út að hlaupa samkvæmt leiðbeiningum. „Mér finnst mjög gaman að hlaupa. Þegar ég fór að hlaupa um daginn mundi ég hvað það er skemmtilegt,“ segir Dagbjört en viðurkennir að hún hafi ekkert stundað nein hlaup síðustu ár. Þegar hún var yngri hafði hún gaman að því að hlaupa og hefur hlaupagleðin því legið í dvala í talsverðan  tíma.  

Alexandra tekur í sama streng og og systir sín og segir: „Okkur hefur alltaf langað að fara út að hlaupa með honum en höfum aldrei gert það.“ Þær eru því býsna ánægðar með framtakið hjá föður sínum og hlakka til að hlaupa öll saman. 

Dagbjört og Haukur á hlaupaæfingu.
Dagbjört og Haukur á hlaupaæfingu.

Að komast yfir þröskuldinn er mesta áskorunin 

„Helsta árskorunin er að koma sér yfir þröskuldinn heima hjá sér og út. Það er ákveðinn sigur og æfingin er þegar byrjuð. Ég held að það sé líka mikilvægt að halda gleðinni í þessu og njóta“ segir Haukur aðspurður hvaða ráðleggingar hann hafi til þeirra sem eru að byrja að hlaupa. Hann bendir á að fyrir nýja hlaupara getur tekið nokkur skipti að venjast nýrri hreyfingu og mikilvægt að gefast ekki upp þótt hlaupin reyni á til að byrja með því þolið kemur fljótt. Svæðið í kring um Reykjavík eins og strandlínan og Heiðmörkin er einstaklega fallegt leiksvæði og við erum heppin að hafa það rétt við útidyrnar hjá okkur, bendir Haukur á.

„Það er tilvalið að hlaupa út þangað sem hugurinn dregur mann en taka strætókortið með og hoppa svo bara upp í strætó og halda heim á leið þegar maður er búinn að njóta útiverunnar og hlaupa nóg. Fyrir þá sem finna hvatningu í keppnisskapi mæli ég með að þeir fái sér gps hlaupaúr og fari að keppa við sjálfa sig og grúska í hlaupa-öppum. Svo er gott að koma við í sundlaugunum og kíkja í heita pottinn og gufuna eða jafnvel taka nokkur sundtök. Það fer vel saman með hlaupunum.“

Hann bendir á kosti þess að hlaupa séum margir og einn af þeim er hversu skilvirk hlaupin eru. Það þarf til dæmis ekki að leita af stæði fyrir utan líkamsræktarstöðina til að byrja að æfa heldur er hægt að byrja strax. 

Haukur á leikvanginum í Norður-Kóreu þar sem hann hljóp heilt …
Haukur á leikvanginum í Norður-Kóreu þar sem hann hljóp heilt maraþon nýverið.

Verða það 5 eða 10 kílómetrar?

Aðspurðar hvaða vegalengd verði fyrir valinu segjast þær ætla í hlaupa fimm kílómetra. Haukur grípur orðið og skýtur því að þær geti vel hlaupið 10 kílómetra og brosir en dæturnar taka dæmt í þessa uppástungu.  Þær bæta við að faðir þeirra hafi verið snöggur að stinga upp á að þær hlypu 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu sem er í ágúst.

„Við ætlum bara að byrja á kvennahlaupinu og sjá hvort við getum þetta,“ segja þær og hlæja. Dagbjört bætir við og segir að amma þeirra hafi hringt í hana um daginn og hvatt þær til að hlaupa 10 kílómetra. Það er ljóst að keppnisskapið er fyrirferðamikið í fjölskyldunni og ef þær líkjast föður sínum eiga þær eftir að hlaupa maraþon eftir nokkur ár.

Byrjaði að hlaupa 30 ára 

„Ég hef mikið verið að keppa við sjálfan mig og félaga mína. Þá hefur verið erfitt að hafa börnin með,“ útskýrir Haukur. Hann byrjaði ekki að hlaupa reglulega fyrr en hann var þrítugur árið 2003 þegar vinnufélagar hans skoruðu á hann að taka þátt í liðakeppni í Reykjavíkurmaraþoninu. Hann stóð við það og hljóp 10 kílómetra og eftir það hefur hann á hverju ári verið að finna sér ný markmið og hefur meðal annars hlaupið mörg styttri götuhlaup, tvö maraþon og nokkur Laugavegshlaup auk þess hljóp hann tvisvar yfir hálendi Íslands síðasta sumar, 111 kílómetra í annað sinn og 140 km í það seinna og hefur keppt í Járnkarlinum í Kaupmannahöfn svo fátt eitt sé nefnt.

Í apríl síðastliðnum hljóp hann maraþon í Norður-Kóreu ásamt félögum sínum, Ara og Almari. „Þetta var ógleymanleg upplifun,“ segir Haukur og viðurkennir að hann hafi rennt blint í sjóinn en ferðin hafi verið einstaklega vel heppnuð. Hann tekur fram að vissulega hafi hópurinn verið í nokkuð stífri dagskrá og því ekki getað ráðið ferðinni mikið. En farið var víða um borgir, bæi og sveitir og margt var skoðað segir Haukur og tekur fram að móttökurnar hafi verið höfðinglegar.

Mikill mannfjöldi fylgdist með maraþonhlaupinu og hvatti maraþonhlauparana áfram og engu var líkara en að þeir væru að keppa á ólympíuleikum því leikvangurinn þar sem hlaupinu lauk var fullur af fólki sem fagnaði þeim eins og þjóðhetjum. Haukur gæti vel hugsað sér að að heimsækja landið aftur og mögulega ferðast á eigin vegum. 

„Áður en maður fór til Kóreu velti maður því stundum fyrir sér hvort Norður Kórea væri raunveruleiki eða leikrit, en þarna hitti maður nú bara einlægt og venjulegt fólk. Nú veltir maður fyrir sér hvort Ameríka sé raunveruleiki eða leikrit. Ætli það sé ekki stjórnarfarið sem er mest skrítið,“ segir Haukur.

Undirbúningur fyrir kvennahlaupið er hafinn.
Undirbúningur fyrir kvennahlaupið er hafinn. mbl.is/Ófeigur

Má ekki gleyma gleðinni

Eftir keppni í 10 kílómetrunum í Reykjavíkurmaraþoninu árið 2003 byrjaði Haukur að hlaupa skipulega og lagði hart að sér að bæta tímann í næsta Reykjavíkurmaraþoni. Eftir nokkur ár af keppni við sjálfan sig tókst að komast undir 40 mínútna múrinn. „Þegar ég var kominn þangað var þetta orðin hálfgerð vinna og farið að vera hálf leiðigjarnt. Ég prófaði því aðra hluti eins og ástralskan fótbolta sem höfðaði vel til mín því í því eru mikil hlaup og einfaldar reglur,“ segir Haukur.

Dætur hans grípa orðið og segja báðar að hann hafi stórslasað sig í þessari íþrótt og oftar en ekki komið blóðugur heim. Haukur er ekki alveg tilbúinn að viðurkenna það alfarið en segist vissulega hafa fengið nokkrar skrámur, brotin rifbein og tognaða fingur. Hann tók meðal annars þátt í Evrópukeppni í áströlskum fótbolta í Króatíu eitt árið og náði íslenska liðið níunda sæti meðað sextán þjóða í sinni fyrstu keppni. Þess má geta að Haukur hafði sjálfur ekki mikinn áhuga á íþróttum þegar hann var yngri og spilaði til að mynda ekki fótbolta.  

Hlaup og sund er það sem Hauki líkar best við af því sem hann hefur prófað. „Þú þarft ekki að eiga fullt af einhverjum græjum nema hlaupaskó og sundföt. Mér liður best að hafa þetta bara einfalt og vera út í náttúrunni,“ segir Haukur og bendir á að fjallvegahlaup höfði mikið til hans. 

Feðginin segja ekki ólíklegt að þau muni hlaupa fleiri hlaup saman annað hvort hér heima eða í útlöndum. Í lok viðtalsins ítreka þær þó að kvennahlaupið verði fyrsta skrefið hjá þeim í hlaupunum og svo ætla þær að sjá til. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert