Fjölmenni á Sveinstind og skíðað niður lengstu brekkuna

Hópurinn á jöklinum í öllu sínu veldi. Veðrið var mjög …
Hópurinn á jöklinum í öllu sínu veldi. Veðrið var mjög gott. Ljósmynd/Ólafur Már Björnsson

Fjörutíu og fimm fjallagarpar gengu á Sveinstind, annan hæsta tind landsins, í stórri ferð sem var farin síðari hluta maí. „Þarna gerðum við eitthvað sem er nú ekki oft gert á fjallaskíðum, en við þveruðum Öræfajökulsöskjuna,“ segir Ólafur Már Björnsson, augnlæknir og fjallagarpur, sem hefur birt glæsilegt myndskeið frá leiðangrinum.

Sveinstindur er annar hæsti tindur landsins, 2.044 metrar á hæð, staðsettur á eystri barmi öskju Öræfajökuls.

Ferðin var farin á vegum Ferðafélags Íslands og Ferðafélags íslenskra fjallalækna 21. maí. Í hópnum voru 45 fjallaskíðakonur og menn, þar af 7 fararstjórar.

Gengið var á skíðum upp Sandfellsleið og skíðað niður Læknaleiðina að Kvískerjum. Þá var verið að skíða við fótspor Sveins Pálssonar læknis sem Sveinstindur er kenndur við. Sveinn Pálsson gekk fyrstur manna, eftir því sem best er vitað, á Sveinstind  í Öræfajökli á seinni hluta 18. aldar.

„Þetta er sennilega ein af stærri skíðaferðum sem hefur verið farin,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is.

Gangan upp á topp tók um það bil níu klukkustundir.
Gangan upp á topp tók um það bil níu klukkustundir. Ljósmynd/Ólafur Már Björnsson

Hópurinn byrjaði á því að ganga upp í 800 metra hæð með skíðin á bakinu til að komast í snjó. Toppað var á Sveinstindi og einnig var farið upp á Sveinsgnípu sem er í 1.925 metra hæð.

Síðan var skíðað niður Læknaleiðina sem er 10 kílómetrar að lengd. „Ein af lengri skíðabrekkum landsins.“

Aðspurður segir Ólafur að gangan upp á topp hafi tekið um það bil níu klukkustundir. Menn séu svo eðlilega fljótari á leiðinni niður þannig að ferðin í heild tók um 13-14 tíma. Í lok ferðar gerði hópurinn vel við sig með góðu rúmi og lambasteik.

„Þetta var ótrúlega mögnuð ferð,“ segir Ólafur sem hefur farið þarna upp þrísvar áður en ekki farið niður þessa leið áður.

Hópurinn naut sín vel á jöklinum.
Hópurinn naut sín vel á jöklinum. Ljósmynd/Ólafur Már Björnsson

Eins og sést í meðfylgjandi myndskeiði er Ólafur með töluverðan myndavélabúnað meðferðis til að feta ferðalagið á filmu. Hann var m.a. með tvo dróna, GoPro-myndavél.

„Maður hefur í nógu að snúast. Mér finnst þetta voða gaman,“ segir Ólafur. „Með þessum hópi kemst maður á skemmtilega staði, það hefur ekki oft verið farið með dróna þarna upp á jökulinn,“ segir Ólafur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert