Hættustig vegna hryðjuverka „í meðallagi“

Svokallað verklag vegna hryðjuverks eða ódæðisverks í nágrannaríki var virkjað hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra um helgina í kjölfar árásarinnar í London á laugardagskvöld.

„Það er ekkert í stöðunni hér á landi en þetta er náttúrulega allt í kringum okkur, að færast nær og nær, og manni finnst svona orðið óþægilegt að þurfa að virkja þetta verklag svona oft og með svo stuttu millibili,“ segir Gylfi Hammer Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra, í samtali við mbl.is.

Hann ítrekar þó að lögregla búi ekki yfir upplýsingum þess efnis að hér sé í undirbúningi ódæðisverk.

Unnið eftir gátlista

„Þá virkjum við ákveðið verklag í greiningardeildinni, mætum á staðinn ef það er utan vinnutíma, og þá er bara gátlisti sem við förum eftir,“ segir Gylfi. „Þá könnum við öll kerfi hjá okkur, hvað við höfum móttekið og hvort það er eitthvað sem tengist Íslandi eða hvort einhverjir Íslendingar hafi lent í einhverju eða eitthvað svoleiðis,“ bætir hann við.

Verklagið hefur verið virkjað við öll þau tilvik að undanförnu þar sem framin hafa verið voðaverk í nágrannalöndum, til að mynda það sem hefur gerst í Englandi og í Svíþjóð á þessu ári.

Hættustig „í meðallagi“

Greiningardeild ríkislögreglustjóra framkvæmir reglulega mat á hættu af hryðjuverkum og ákvarðar svokallað hættustig, en frá árinu 2015 hefur hættustigið á Íslandi verið „í meðallagi“. Það að hættustigið sé metið „í meðallagi“ þýðir það að almennt sé talið að ekki sé hægt að útiloka hættu á hryðjuverkum vegna ástands innanlands eða í heimsmálum. Að sögn Gylfa er reynt að framkvæma áhættumatið á hverju ári, síðast var það gert árið 2015 og svo nú í byrjun febrúar á þessu ári.

Gylfi Hammer Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra.
Gylfi Hammer Gylfason, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra. Ljósmynd/úr safni lögreglu

Í skýrslu sem gefin var út í febrúar er greint ítarlega frá mati ríkislögreglustjóra á hættunni af hryðjuverkunum. Þar kemur meðal annars fram að lögreglu í Evrópu hafi tekist að koma í veg fyrir mörg hryðjuverk og undirbúning voðaverka sem hafi verið í bígerð, og að á árunum 2015-2016 hafi komið hingað til lands aðilar með tengsl við hryðjuverk. Þeir eru nú farnir af landi brott.

„En kannski er rétt að ítreka það að við búum ekki yfir upplýsingum þess efnis að hér sé í undirbúningi eitthvert ódæðisverk,“ segir Gylfi. Áður var hættustigið metið á lægsta stigi en það hefur haldist óbreytt í meðallagi síðan árið 2015. „Við bara töldum, að í ljósi ástands í heiminum og nágrannaríkjunum væri ekki óeðlilegt að við værum „í meðallagi“ þar sem ekki er hægt að útiloka hvort einhverjir aðilar sem tengist hryðjuverkastarfsemi hafi komið til landsins,“ segir Gylfi.

Viðbúnaðarstig óbreytt

Viðbúnaðarstig, eða svokallað vástig aftur á móti, á við um það þegar ríkislögreglustjóri telur t.d. ástæðu vera til þess að lögregla setji upp vopnaða varðgæslu. Það er ríkislögreglustjóri sem tekur ákvörðun um vástig en því hefur ekki verið breytt í kjölfar hryðjuverka í nágrannalöndum Íslands að undanförnu.

„Á fundum [greiningardeildar] með ríkislögreglustjóra er farið yfir það hvort það sé talin þörf á því að hækka, til dæmis viðbúnaðarstig, en það hefur ekki verið talin þörf á því á Íslandi,“ segir Gylfi.

Öryggi borgaranna ávallt í öndvegi

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur óskað eftir áhættumati frá grein­ingar­deild rík­is­lög­reglu­stjóra vegna þeirrar hryðju­verka­ógn­ar sem vof­ir yfir Evr­ópu. Gylfi staðfestir að deildinni hafi borist slíkt erindi og að það verði metið í samræmi við áhættumat sem greint er frá í skýrslunni frá því í febrúar.

„Við bara göngum dálítið út frá þessu mati okkar, það er svona grunnskjalið, og síðan förum við yfir nýjustu upplýsingar, bæði erlendis frá og hérna innanlands, hvort það er eitthvað sem getur breytt þessari stöðu,“ segir Gylfi. Þær upplýsingar fær lögregla svo í hendur og metur út frá niðurstöðum greiningardeildar hvort og þá til hvaða ráðstafana hún þurfi að grípa.

„En þetta er náttúrulega svo hröð þróun getur maður sagt í hryðjuverkaógninni, þetta er síbreytileg og hröð þróun í þessu,“ segir Gylfi. „Það getur verið erfitt að koma í veg fyrir þetta og koma upp um þetta en yfirvöld náttúrulega reyna hvað þau geta til að tryggja öryggi borgaranna og fylgjast með.“

Hann segir lögregluna á Íslandi leitast í sífellu við að bæta verklag sitt og vera í góðri æfingu, enda sé meginmarkmiðið ávallt að tryggja öryggi borgaranna. Ítrekar hann þó að lokum að miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja sé ekki yfirvofandi hætta á hryðjuverkum á Íslandi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert