Þremur sagt upp úr áhöfn Polar Nanoq

Grænlenski togarinn Polar Nanoq í Hafnarfjarðarhöfn.
Grænlenski togarinn Polar Nanoq í Hafnarfjarðarhöfn. mbl.is/Ófeigur

Þremur úr áhöfn grænlenska togarans Polar Nanoq hefur verið sagt upp störfum eftir að þeir féllu á lyfjaprófi sem lagt er reglulega fyrir starfsmenn útgerðarinnar Polar Seafood. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu sem reifuð er á fréttavefnum Sermitsiaq.

Fram kemur í tilkynningunni að nokkrum dögum áður hafi verið lagt fyrir lyfjapróf á öðrum togara útgerðarinnar. Þar reyndust öll sýnin neikvæð.

Í sýnum þeirra þriggja sem sagt hefur verið upp var að finna merki um neyslu kannabisefna. Var þeim skilað í land í næstu höfn.

Togarinn kom mikið við sögu í máli Birnu Brjánsdóttur, sem fannst látin í fjörunni við Selvogsvita í janúar síðastliðnum. Einn fyrrverandi skipverji togarans er í haldi grunaður um að hafa ráðið henni bana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert