Borgarlínan mun kosta 63-70 milljarða

Byggja á upp borgarlínu með rafmagnsstrætisvögnum, en til lengri tíma …
Byggja á upp borgarlínu með rafmagnsstrætisvögnum, en til lengri tíma gæti verið horft til hraðlesta.

Kostnaður við uppbyggingu borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu mun nema 63-70 milljörðum króna, en áætlað er að byggja kerfið upp í áföngum. Endanlegar tillögur um legu línunnar eiga að liggja fyrir síðsumars í ár og undirbúningur fyrsta áfanga að ljúka í byrjun árs 2018. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, en síðar í dag verður kynningarfundur um fyrirhugaða legu línunnar.

Áætlað er að borgarlínan verði allt að 57 kílómetrar að lengd með 13 kjarnastöðvum þar sem áætlað er að aukin uppbygging húsnæðis verði samhliða.

Í tilkynningunni segir að samkvæmt mannfjöldaspá geti íbúum á höfuðborgarsvæðinu fjölgað um 70 þúsund á næstu 25 árum og með auknum ferðamannastraumi geti það að óbreyttu aukið ferðatíma fólks um allt að 65% og umferðatafir um rúmlega 80%. Það sé því markmið sveitarfélaganna með borgarlínu að auka vægi almenningssamgangna til að vega á móti þeirri þróun.

Fyrstu tillögur um Borgarlínu.
Fyrstu tillögur um Borgarlínu. Mynd/Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu

Í apríl á þessu ári sendu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu bréf til fjárlaganefndar þar sem óskað var eftir þátttöku ríkisins í kostnaði við uppbyggingu borgarlínu. Kom þar meðal annars fram að áætlaður heildarkostnaður við borgarlínuna væri um 55 milljarðar (með vikmörkum á bilinu 44-72 milljarðar). Þá var gert ráð fyrir að kostnaður vegna hönnunar og nauðsynlegs rekstrarlegs og tæknilegs undirbúnings fyrir verklegar framkvæmdir verði um 1,5 milljarður króna á árunum 2017 – 2018.

Samkvæmt skýrslu VSÓ ráðgjafar vegna breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur fyrir árin 2010-2030 um afmörkun samgöngu- og þróunaráss kemur fram að í upphafi sé gert ráð fyrir uppbygging hraðvagnakerfis, en ef þétting umhverfis borgarlínuna og aukin notkun samgöngukerfisins aukist geti skapast forsendur fyrir léttlestarkerfi. Til að ná þeim markmiðum þurfi almenningssamgöngur að ná 12% hlutdeild í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Því sé hægt að ná með því að stækka hóp mögulegra farþega, m.a. með því að þétta byggð umhverfis borgarlínuna.

Hugmyndir um hvernig borgarlínan yrði við Fífuhvammsveg.
Hugmyndir um hvernig borgarlínan yrði við Fífuhvammsveg.

Fyrirsjáanlegar eru miklar tækniframfarir í tengslum við farþegaflutninga á komandi árum, meðal annars með tilkomu rafbíla og sjálfkeyrandi búnaðar í þeim. Í tilkynningu samtakanna núna segir að ein helsta áskorun borgarumhverfis framtíðar sé plássleysi og sökum þess munu tækniframfarir í formi sjálfkeyrandi bíla aldrei geta leyst af hólmi afkastamiklar almenningssamgöngur.

Áætlað er að vagnar borgarlínunnar verði rafknúnir og muni ferðast í sérrými og fái forgang á umferðarljósum. Gert er ráð fyrir að ferðatíðni verði á milli 5-7 mínútur á annatímum og verða byggðar yfirbyggðar biðstöðvar með farmiðasölu og upplýsingaskiltum í rauntíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert