Enginn hreyfði andmælum

Hver þingmaður hefur rétt á að brjóta upp atkvæðagreiðslu og …
Hver þingmaður hefur rétt á að brjóta upp atkvæðagreiðslu og láta greiða atkvæði um einstaka liði. mbl.is/Golli

Alþingismenn gátu óskað eftir því að kosið yrði um hverja skipan fyrir sig þegar kom að skipun dómara í Landsrétt. Enginn þingmaður hreyfði hins vegar andmælum um að kosið yrði um allar tillögurnar sameiginlega.

„Það er skýr þingvenja að það hefur hver þingmaður rétt á því að brjóta upp atkvæðagreiðslu, láta greiða atkvæði sérstaklega um einstaka liði,“ segir Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, en Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, lét þingmenn vita af þeim rétti þeirra áður en atkvæði voru greidd. „Tillagan í 15 töluliðum verður borin upp í heild ef enginn hreyfir andmælum við því,“ sagði Unnur Brá við upphaf atkvæðagreiðslunnar.

„Í 79. gr. laga um þingsköp segir að það sé grundvallarregla að forseti [Alþingis] ráði því hvernig atkvæðagreiðslu er skipt og hvernig hún fer fram. Ef frumvarp er til atkvæðagreiðslu og engin breytingartillaga er við margar greinar ber forsetinn saman undir atkvæði allar greinarnar, hann lætur ekki greiða atkvæði um hverja grein fyrir sig,“ segir Helgi.

Í grein sem Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, ritar í Morgunblaðið í dag segir hann að full samstaða hafi verið um það innan þings að fylgja ákvæðum þingskapa og því fyrirkomulagi sem viðhaft var við atkvæðagreiðsluna. Segir hann að tillaga forseta Alþingis um að greidd yrðu atkvæði í einu lagi hafi byggst á samtölum við forystumenn þingflokkanna og að málið hafi margítrekað verið rætt á fundum forseta með þingflokksformönnum án þess að athugasemdir hafi verið gerðar.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, hefur óskað eftir því að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, skrifi ekki undir tillögurnar vegna þess að þær voru bornar upp sem ein heild. Jón Þór var viðstaddur atkvæðagreiðsluna. Þar óskaði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, eftir nafnakalli og varð forseti við því. Hvorki Jón Þór né aðrir þingmenn óskuðu hins vegar eftir því að atkvæðagreiðslan yrði brotin upp.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert