Dæmdur fyrir nauðgun í annað sinn

Hæstiréttur íslands.
Hæstiréttur íslands. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Ingvar Dór Birgisson var í dag dæmdur í eins og hálfs árs fangelsi í Hæstarétti fyrir kynferðisbrot gegn 14 ára gamalli stúlku árið 2014. Hann hefur áður hlotið dóm fyrir kynferðisbrot, en árið 2015 var hann dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir að nauðga annarri 14 ára gamalli stúlku.

Í dómnum kemur fram að Ingvar hafi nýtt sér yfirburðastöðu sína gagnvart stúlkunni og haft við hana samræði og önnur kynferðismök. Ingvari var einnig gert að greiða fórnarlambi sínu 1,2 milljónir króna. Brotið framdi hann á meðan hann beið refsingar í hinu málinu.

Meira en helmingi eldri en stúlkan

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði á síðasta ári dæmt Ingvar í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir brotið, en Hæstiréttur mildaði í dag dóminn. Í dómi Hæstaréttar segir að þar sem brot hans hafi verið framið fyrir uppkvaðningu dóms í fyrra málinu beri dómnum að dæma honum hegningarauka. 

Í dómi Hæstaréttar segir að brot Ingvars sé „alvarlegt og ófyrirleitið“. Kvað stúlkan Ingvar hafa vitað að hún var 14 ára á þessum tíma en hann hafi verið 29 ára.

Hótaði að birta nektarmyndir ef hún kæmi ekki í heimsókn

Fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur að Ingvar hefði haft samskipti við stúlkuna í gegnum samfélagsmiðla, fengið hana til að senda sér nektarmyndir og þá hótað henni að birta myndirnar á netinu ef hún kæmi ekki í heimsókn til hans. Hann hafi greitt fyrir hana fargjald í strætó og leiðbeint henni að heimili sínu. Þar hafi hann síðan brotið á henni. 

Stúlkan leitaði til lögreglu ásamt móður sinni í kjölfar brotsins. Ingvar neitaði því alfarið í fyrstu yfirheyrslu að hafa haft samræði við stúlkuna. Kannaðist hann við að hafa hitt hana einu sinni stuttlega fyrir tilviljun í Hamraborg á leið sinni til vinnu. Síðar viðurkenndi hann að hafa átt opinská kynferðisleg samtök við hana á Skype.

Flúði land þrátt fyrir farbann

Var Ingvar úrskurðaður í farbann í kjölfarið en fór samt sem áður úr landi. Var því gefin út handtökuskipun á hendur honum og var hann handtekinn við komu til Amsterdam og framseldur þaðan til Íslands. Á þeim tíma beið hann dóms Hæstaréttar í máli þar sem honum var gefið að sök kynferðisbrot gagnvart 14 ára stúlku árið 2010. 

Fram kemur í dómnum að Ingvar hafi í samtölum sínum við stúlkuna lýst því hvaða kynferðislegu athafnir hann hugðist framkvæma með henni en stúlkan greindi honum frá því að hún hefði ekki haft samræði áður.

Vinkonan hvatti hana til að segja frá

Þegar stúlkan sagði vinkonum sínum frá þessu þá hafi önnur þeirra hvatt hana til að segja frá því sem gerðist. Hafi hún ekki gert sér grein fyrir því fyrr en hún fór að ræða við hana að um nauðgun væri að ræða. Hún hafi hins vegar í fyrstu ekki þorað að segja neinum fullorðnum frá strax.

Í dómnum kemur fram að samskipti mannsins við stúlkuna beri glöggt með sér að fullorðinn maður talar við reynslulitla unglingsstúlku. „Hið kynferðislega tal er einhliða af hans hálfu og hann stýrir því alfarið. Hann þrýstir á brotaþola með vaxandi þunga og er tilgangurinn sá að sannfæra hana um að hún eigi að koma og eiga sín fyrstu kynferðismök með honum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert