Fegin að börnin voru ekki úti

Árásin átti sér stað við Æsustaði í Mosfelldal í gærkvöldi.
Árásin átti sér stað við Æsustaði í Mosfelldal í gærkvöldi. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Það er sláandi að heyra að svona hlutir gerist í landinu okkar, hvað þá í næsta nágrenni,“ segir íbúi í Mosfellsdal í samtali við mbl.is. Tæplega fertugur karlmaður lést eftir hrottalega líkamsárás í Dalnum í gærkvöldi. Íbúar í nágrenninu sem mbl.is hefur rætt við segjast slegnir en taka þó öllu með ró. Um einstakt mál sé að ræða. Enginn ófriður eða læti hafi verið í kringum heimili hins látna þar til í gær. 

Maðurinn sem lést var tæplega fertugur, fæddur árið 1978. Hann eignaðist dóttur fyrir nokkrum dögum. Í frétt Vísis segir að árásarmennirnir hafi bankað upp á á heimili hans, Æsustöðum, spurt eftir honum og ráðist á hann er hann kom til dyra. 

Aðgerðir lögreglu á vettvangi í gær fóru ekki framhjá neinum í Mosfellsdal enda fjölmennt lið lögreglu, sérsveit ríkislögreglustjóra og sjúkrabílar kallaðir út. Fyrsta tilkynning til lögreglu um árásina barst kl. 18.24 í gærkvöldi. Lögreglan lagði hald á tvo bíla í tengslum við málið, m.a. amerískan pallbíl á vettvangi.

Nokkrir urðu vitni að árásinni eða eftirmálum hennar. Í henni var bareflum beitt, fórnarlambið tekið hálstaki og ekið yfir fætur þess, að því er fram hefur komið í fréttum Vísis. Íbúi sem mbl.is náði tali af segir að svo virðist sem að einhverjir árásarmannanna hafi dvalið á staðnum um stund eftir árásina þar sem þeir voru þar enn er lögreglu bar að garði. Voru þeir handjárnaðir á staðnum. Þrír til viðbótar voru svo handteknir á Vesturlandsvegi. Alls voru sex handteknir.

„Sem betur fer voru börnin ekki úti og urðu vitni að þessu,“ segir einn íbúi sem býr í nágrenninu.

Reynt var að endurlífga manninn á vettvangi en það bar ekki árangur og var hann úrskurðaður látinn á Landspítalanum í gærkvöldi.

Fréttastofa RÚV hefur heimildir fyrir því að árásin tengist uppgjöri í fíkniefnaheiminum. Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn, vildi ekki staðfesta það við mbl.is í morgun en sagði að tengsl hafi verið milli árásarmannanna og fórnarlambsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert