Rannsaka hugsanlega ákvörðun ráðherra

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þingmenn Pírata í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis lögðu í dag fram tillögu í nefndinni um að kannað yrði hvort ákvarðanir dómsmálaráðherra og verklag við vinnslu tillögu til Alþingis um skipan dómara í Landsrétt hafi farið að lögum.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, segir málið hafa verið reifað á fundinum, og nefndarmenn hafi verið sammála um að slík rannsókn falli undir hlutverk og ábyrgðarsvið nefndarinnar. Segir hann nefndarmenn því hafa tekið vel í tillöguna en fram hafi komið áhyggjur af því að rannsókn af þessu tagi gæti haft áhrif á yfirvofandi dómsmál.

Eins og greint hefur verið frá hefur Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður ákveðið að stefna ríkinu vegna ákvörðunarinnar, en Ástráður var einn þeirra sem hæfisnefnd mat hæfasta í starfið.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, á leið á fund stjórnskipunar- …
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, á leið á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki af stað með rannsókn hafi það áhrif á dómsmál

„Við förum ekki af stað með rannsókn sem gæti haft áhrif á dómsmál,“ sagði Jón Þór í samtali við mbl.is eftir fundinn. Hann segir nefndina nú munu boða umboðsmann Alþingis og aðallögfræðing Alþingis á sinn fund og ákvörðun verði tekin í kjölfarið. Taldi hann þó líklegt að farið yrði af stað með rannsókn hefði það ekki áhrif á dómsmálið, en ef það hefði áhrif yrði líklega farið af stað með rannsókn eftir að dómsmálið kláraðist.

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar og 1. varaformaður nefndarinnar sagði í samtali við mbl.is eftir fundinn að ekki væri hægt að fullyrða um það núna hvort rannsókn yrði sett af stað hefði það ekki áhrif á dómsmálið. „Það var engin ákvörðun tekin um þeirra formlegu tillögu um að fara í rannsókn. En við munum ræða það þegar við fáum betri yfirsýn yfir þetta,“ segir hann. „Við munum leita okkur sérfræðiálita þar sem við munum velta fyrir okkur samspili dómsmáls, valdheimilda og starfs nefndarinnar.“

„Við kusum gegn þessari tillögu“

Rannsóknin myndi þá snúa að því hvort ráðherra hafi með sínum ákvörðunum og verklagi brotið lög áður en málið var lagt fyrir Alþingi. Meðferð Alþingis hefur þó einnig verið mikið rædd, en enginn þingmaður hreyfði andmælum um að kosið yrði um allar tillögurnar sameiginlega.

Hvers vegna voru ekki lögð fram andmæli ef minnihlutinn var ósammála þessari nálgun?

„Það voru gerðar ítrekaðar athugasemdir í nefndinni og við kusum gegn þessari tillögu. Það er meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem tekur þetta saman í þennan pakka af 15. Við kusum gegn því, en það var einsýnt að þeir ætluðu að gera þetta svona,“ segir Jón Þór.

„Þingnefndin hafði þessa heimild til að stilla þessu upp svona svo meðferðin á þinginu var lögleg en við höfnuðum því að þetta yrði gert svona og kusum gegn því.“

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd.
Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gleðilegt að forseti geri ekki athugasemd við meðferð þingsins

Eins og fjallað var um fyrr í dag hefur forseti Íslands undirritað skipunarbréf 15 dómara við Landsrétt. Segist hann hafa komist að þeirri niðurstöðu að mistök hefðu ekki átt sér stað við undirbúning og tilhögun atkvæðagreiðslu um málið á Alþingi 1. júní og að hún hefði verið í samræmi við lög, þingvenju og þingsköp.

Jón Steindór segir gleðilegt að forsetinn sjái ekkert athugavert við formlegu meðferð þingsins. Loks segir hann næsta fund nefndarinnar verða haldinn næstkomandi miðvikudag, þar sem málið verður rætt með sérfræðingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert