Þekktur ofbeldismaður í haldi

Frá aðgerðum lögreglu í Mosfellsdal í gærkvöldi.
Frá aðgerðum lögreglu í Mosfellsdal í gærkvöldi. mbl.is/Ófeigur

Jón Trausti Lúthersson, sem heimildir RÚV herma að hafi verið handtekinn í tengslum við manndrápsmálið í Mosfellsdal í gærkvöldi, hefur áður verið sakaður um og dæmdur fyrir líkamsárásir. Í desember árið 2003 er hann sagður hafa barið lögreglumann við komuna til landsins. Lögreglumaðurinn þorði ekki að kæra málið þar sem hann óttaðist að Jón Trausti og félagar hans myndu hefna sín á sér og fjölskyldu sinni, að því er fram kom í DV á sínum tíma.

Í frétt Vísis er saga Jóns Trausta og tengsl hans við vélhjólaklúbba rakin. Þar segir að Jón hafi stofnað mótorhjólaklúbbinn Fáfni sem síðar varð fullgildur meðlimur Hells Angels. Hann stofnaði síðar klúbbinn Black Pistons MC sem var stuðningsklúbbur Outlaws.

Árið 2004 réðst Jón Trausti inn á ritstjórnarskrifstofur DV og réðst á Reyni Traustason, þáverandi fréttastjóra blaðsins. Í frétt DV daginn eftir sagði að þrír menn hefðu ruðst inn á ritstjórnarskrifstofuna með dólgslátum. Þeir hafi allir verið klæddir í vesti með auðkenni vélhjólaklúbbsins Fáfnis. Þeir vildu ná tali af ritstjóranum, Mikael Torfasyni, en þegar það gekk ekki eftir réðst Jón Trausti á Reyni, tók hann hálstaki og herti að með þeim afleiðingum að honum sortnaði fyrir augum, marðist og hruflaðist á hálsi. Hlaut Jón Trausti tveggja mánaða fangelsisdóm í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna árásarinnar. Reynir sagði frá málinu í bókinni Afhjúpun. 

Í bók sinni skrifar Reynir um málið: „Áður en málið fór fyrir dóm bárust mér hótanir um að menn myndu koma heim til mín ef ég félli ekki frá framburði mínum. Mér barst til eyrna að þeir sem stóðu að hótunum hefðu boðið tilteknum aðilum 100 þúsund krónur fyrir að ráðast inn á heimili mitt.

Ég hafði nokkrar áhyggjur af þessu máli en gerði þó ekkert í fyrstu. Eitt sinn hitti ég einn af æðstu mönnum lögreglunnar á förnum vegi. Við heilsuðumst með virktum og ég spurði hann ráða. Hann hugsaði sig um í smástund en sagði svo að hugsanlega mætti koma fyrir eftirlitsmyndavél utan á húsinu. Svo leit hann á mig og sagði einlægur: „Það eina sem dugar á svona menn er að láta buffa þá.“

Í janúar árið 2008 dæmdi Hæstiréttur Jón Trausta í átján mánaða fangelsi fyrir umferðarlagabrot og hlutdeild í líkamsárás. 

Sex voru handteknir vegna manndrápsins í Mosfellsdal í gær; fimm karlmenn og ein kona. Þau eru enn öll í haldi lögreglu og verður tekin ákvörðun síðar í dag um hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert