Rannsaka lífsýni úr fötum

Lögreglan ásamt einum hinna grunuðu.
Lögreglan ásamt einum hinna grunuðu. mbl.is/Ófeigur

Lögregla rannsakar lífsýni úr fötum sakborninga sem grunaðir vegna aðildar að manndrápi við Æsustaði í Mosfellsdal á miðvikudag. Tveir þeirra voru klæddir sams konar einlitum íþróttagöllum og skóhlífum þegar þeir voru leiddir fyrir dómara í gær.

„Það voru einhverjir þeirra sem voru teknir og prósessaðir út frá réttarlæknisfræðilegri skoðun,“ segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn. Spurður hvort lífsýnin verði send út eða greind heima fyrir segir hann að það liggi ekki fyrir.

„Það er líka bara verið að skoða föt og svona. Það liggur ekki ljóst fyrir hvort við þurfum að senda nein sýni út, það getur alveg komið til þess en það liggur bara ekki fyrir,“ segir hann.

Sex voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur vegna gruns um aðild að manndrápinu. Þrír sakborningar hafa verið nafngreindir í fjölmiðlum.

Fólkið er grunað um manndráp eða eftir atvikum stórfellda líkamsárás, en vitni að árásinni fullyrða að keyrt hafi verið á stórum pallbíl yfir fætur þess sem lést. Lögregla haldlagði tvær bifreiðar í tengslum við málið.

Hinn látni hét Arnar Jónsson Aspar og var 39 ára gamall. Hann lét eftir sig unnustu og tvær dætur, fimmtán ára og einnar viku gamla.

Að sögn fjölskyldumeðlims er fjölskyldan í áfalli. Íbúar í nágrenninu eru slegnir yfir atburðinum og segja hann einstakan, ekki hafi áður orðið vart við ófrið við Æsustaði. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert