Rannsakar áhrif árstíðatengdrar birtu

Virginia Vitzthum, prófessor.
Virginia Vitzthum, prófessor. mbl.is/Kristinn

Árstíðatengdar breytingar á dagsbirtu á Íslandi gætu haft áhrif á styrk hormóna meðal kvenna og það gæti aukið áhættuna á ákveðnum sjúkdómum eins og brjóstakrabbameini og hjarta- og æðasjúkdómum. Virginia Vitzthum, prófessor við háskólann í Indiana í Bandaríkjunum, er nú stödd hér á landi til að rannsaka þetta og nefnist verkefnið Rannsókn á líffræði kvenna, CYCLES á Íslandi.

Rannsóknin beinist að því hvernig mishár styrkur hormóna tengist áhættu á ákveðnum sjúkdómum, virkni ónæmiskerfisins og öðrum þáttum í almennri vellíðan. Vitzthum skoðar m.a hvort árstíðatengdar breytingar á dagsbirtu, mismunandi svefntími, mismunandi fæðutegundir og líkamshreyfing hafi áhrif á magn hormónanna.

Dagsljósið skiptir máli

„Við mælum hormón í íslenskum konum yfir sumar og vetur til að skoða hvort það sé munur í styrk. Það er mikilvægt að vita hvort dagsljósið, eða skortur á því, hafi áhrif á tíðahring kvenna því framleiðsla hormóna er tengd heilsu og áhættu á að fá sjúkdóma eins og brjóstakrabbamein,“ segir Vitzthum. „Við vitum að konur sem vinna mikla næturvinnu eru í meiri áhættu á að fá brjóstakrabbamein og við vitum að flugþjónar og flugmenn eru líka í meiri áhættu, þetta gæti verið tengt framleiðslu á hormónum. Við vitum líka að það er árstíðabundið hvenær fólk eignast börn í ákveðnum samfélögum. Á Íslandi er fæðingartíðni árstíðatengd, svo þetta gæti líka tengst frjóseminni. Sjúkdómar í ónæmiskerfi eru líka tengdir hormónum, sem og þunglyndi og hjarta- og æðasjúkdómar. Breytingar á dagsljósi yfir árið gætu átt þátt í öllu þessu og skipt máli þegar kemur að heilsu Íslendinga,“ segir Vitzthum.

Fyrsti hluti rannsóknarinnar fór fram síðasta haust, næsti hluti er tekinn nú í sumar og sá þriðji og síðasti fer fram frá september fram í desember á þessu ári. Vitzthum þarf 20 til 30 konur í rannsóknina í hvert skipti og auglýsir nú eftir þeim.

„Síðasta vetur tóku 20 konur þátt og flestar þeirra taka líka þátt núna, við erum að leita að nýjum konum til að taka þátt í sumar og biðjum þær að taka þátt aftur næsta vetur. Rannsóknin byggist á því að mæla hormóna og ónæmisvirkni í munnvatni, þvagi og blóðdropasýnum sem þátttakandinn tekur sjálf heima hjá sér. Við fáum líka upplýsingar um m.a. veru í sólskini, mataræði, hreyfingu og svefn en þessir þættir gætu allir haft áhrif á magn hormóna,“ segir Vitzthum.

Mjög vel hefur gengið að fá þátttakendur að sögn Vitzthum og segir hún íslenskar konur líklega þær áhugasömustu sem hún hefur haft í rannsókn. Starfsfólk nokkurra deilda við Háskóla Íslands vinnur rannsóknina með Vitzthum.

Skoðar hormónafjölbreytnina

Vitzthum segir konur hafa mismunandi styrk hormóna í líkamanum. „Til að skilja heilsu kvenna og gera það sem er best fyrir þær verðum við að vita hvernig líkamar þeirra virka. Þetta er mikilvægt vegna t.d. hormónagetnaðarvarna en þegar þeim er ávísað er ekkert tillit tekið til mismunandi hormónamagns kvenna og að þær þurfi ólíka skammta. Lífsstarf mitt snýst um að skilja þessa hormónafjölbreytni og áhrifin á heilsu kvenna,“ segir Vitzhum en niðurstöður rannsóknarinnar ættu að verða ljósar eftir rúmt ár.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert