Segir Rambó hafa svikist undan

Einkaspæjarinn Krzysztof Rutkowski.
Einkaspæjarinn Krzysztof Rutkowski. Skjáskot/Wikipedia

„Þetta gekk ekki, hann laug. Hann sagðist ætla að koma sjálfur til landsins eða senda fagmenn en svo sendi hann bara blaðamann sem var hér í nokkrar vikur og er nú farinn af landi,“ segir  Elwira Landowska, frænka Arturs Jarmosz­ko. Hún segir farir fjölskyldunnar ekki sléttar í samskiptum við pólska einkaspæjarann sem var ráðinn til að rannsaka hvarf Arturs. 

Greint var frá því á mbl.is að fjölskylda Arturs Jarmosz­ko, sem ekk­ert hef­ur spurst til síðan 1. mars, hefði safnað fé til að ráða þekkt­an pólsk­an einka­spæj­ara, Krzysztof Rut­kowski, til að grennsl­ast fyr­ir um af­drif hans.  Hann er 57 ára gamall fyrrverandi þingmaður á pólska þinginu, sem er kallaður „Rambó“ af aðdáendum sínum og hef­ur kom­ist í heims­frétt­irn­ar, meðal ann­ars fyr­ir að hafa laumað níu ára gam­alli pólskri stúlku, sem hafði verið í um­sjá norskra barna­vernd­ar­yf­ir­valda, til fjöl­skyldu henn­ar í Póllandi.

Að sögn Elwiru sagði Rutkowski við móður Arturs, sem býr í Póllandi, að hann hefði komið til Íslands en þegar hún krafði hann um sönnun þess efnis hefði hann snúið út úr. Þá hefði hann staðið í hótunum þegar endurgreiðsla og málsókn komu til tals. 

„Þegar hún bað um að fá endurgreitt byrjaði Rutkowski að hóta henni. Hún varð mjög hrædd og þurfti að skrifa undir samning sem kveður á um að hún geti ekki farið í mál við hann.“ 

Fengu ekkert fyrir peninginn

Fjölskylda Arturs greiddi Rutkowski upphæð sem nemur um tveimur milljónum íslenskra króna fyrir fram. Elwira segir að fimmtungur af upphæðinni hefði fengist endurgreiddur þegar móðir Arturs skrifaði undir samkomulagið um að höfða ekki málsókn. Restin sé tapað fé því ekkert hefði fengist fyrir. 

Þeir gerðu ekki neitt. Blaðamaðurinn útbjó myndband af sér fara á alla staði sem Artur var á áður en hann hvarf en þetta var bara auglýsing fyrir hann sjálfan, hann var bara í fríi á Íslandi.“

Fleiri telja sig svikna

Þegar Rutkowski hætti afskiptum af málinu segist Elwira hafa skoðað feril hans betur. Þá hafi komið í ljós að fleiri höfðu sömu sögu að segja. 

„Það var til dæmis eitt mál með stelpu í Egyptalandi þar sem Rutkowski fór sjálfur í málið. Síðan birtust myndbönd á netinu af honum að djamma í stað þess að rannsaka málið. Það eru fleiri sem hafa lent í þessu en enginn þorir að fara einn gegn honum.

Þá segir Elwira að engar nýjar upplýsingar í tengslum við hvarf Arturs hafi komið í ljós. „Ég held að það hafi liðið of langur tími til að eitthvað fari að breytast í málinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert