Telur Costco hafa áhrif á áfengisverð

Costco opnaði í síðasta mánuði hér á landi.
Costco opnaði í síðasta mánuði hér á landi. mbl.is/Ófeigur

Dæmi eru um töluverða lækkun á verði áfengis í verslun Fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli að undanförnu, að sögn Arnars Sigurðssonar, vínsala og innflytjanda hjá Sante Wines.

„Dom Perignon-flaska sem var seld á um 20 þúsund krónur fyrir ekki svo löngu er komin niður í tæpar 15 þúsund krónur,“ segir Arnar sem telur að rekja megi lækkanir Fríhafnarinnar til opnunar Costco.

„Ég hef rýnt í verð í Costco og almenningur er að átta sig á því hvað er nær því að vera eðlilegt verð á áfengi hér á landi. Þú getur rétt ímyndað þér hvaða áhrif raunverulegt viðskiptafrelsi hefði á þennan markað.“

Tafla/mbl.is

Vísa til gengisþróunar

Spurður hvort verð Fríhafnarinnar, Costco og ÁTVR sé samanburðarhæft segir hann eðlilegra að horfa á muninn milli ÁTVR og Costco.

„Í Fríhöfninni eru hvorki lagðir á skattar né tollar. Það skekkir allan samanburð. Milli Costco og ÁTVR er eini munurinn að löggjafinn treystir engum nema eigin fyrirtæki til að selja almenningi áfengi í smásölu. Annars er verðið sambærilegt.“

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir verð í verslunum fyrirtækisins vera í höndum innflytjenda, ekki verslunarinnar.

„Innflytjendur stjórna verði á sínum vörum og geta breytt verðinu einu sinni í mánuði. Við höfum ekki orðið vör við miklar verðbreytingar núna um mánaðamótin,“ segir Sigrún Ósk.

Þorgerður Þráinsdóttir, framkvæmdastjóri Fríhafnarinnar, segir verðlækkanir stafa af gengisþróun.

„Við erum ekki í samkeppni við Costco heldur aðrar fríhafnir. Gengisþróun hefur því mest áhrif á vöruverð hjá okkur en verð byrjaði að lækka strax um áramót,“ segir Þorgerður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert