Frásagnir eldri borgara varðveittar til framtíðar

Hér má sjá stafagöngukynningu á Gjábakka árið 2000.
Hér má sjá stafagöngukynningu á Gjábakka árið 2000. Mynd/Skjalasafn Gjábakka. Héraðsskjalasafn Kópavogs

Hópur meistaranema við Listaháskóla Íslands hefur undanfarnar vikur unnið verkefni sem felur í sér að taka upp frásagnir eldri borgara frá einstökum viðburðum úr lífi þeirra. Markmið verkefnisins er að miðla þekkingu og reynslu fólks, sem er fætt fyrir miðja síðustu öld, til komandi kynslóða. Rakel Blomsterberg meistaranemi segir hópinn hafa lagt mikla áherslu á að efla sýnileika eldri borgara og miðla dýrmætri reynslu þeirra. Jafnframt segir hún varðveislu hversdagsleikans mikilvæga.  

Upptökunum er miðlað til almennings í gegnum vefsíðu Hljóðbókasafnsins. Þær verða opnar öllum og ekki þarf sérstakan aðgang að bókasafninu til að nálgast þær. Í hópnum eru þau Dagrún Magnúsdóttir, Elín Sveinsdóttir, Herborg Eðvaldsdóttir, Rakel Blomsterberg, Ragnheiður Sigurðardóttir og Þórhalla Laufey Guðmundsdóttir. Verkefnið, sem er lokaverkefni í áfanganum list og samfélag, heitir „Frásagnir til framtíðar“. 

Dýrmætri reynslu miðlað 

Í skýrslu hópsins sem fylgdi verkefninu er fjallað um nauðsyn þess að efla sýnileika eldri borgara, bæði sem dýrmæta uppsprettu reynslu og þekkingar en einnig sem hóps sem hefur sínar þarfir og langanir. Eldri borgarar á Íslandi sé hópur sem sé því miður of oft afskiptur. Þetta eigi bæði við gagnvart stofnunum og þjónustu þeirra en ekki síður félagslega, sem hóps sem hefur dýrmæta reynslu og þekkingu fyrir þjóðfélagið. „Við teljum því mikilvægt að koma þessari reynslu á framfæri við aðra samfélagshópa og á þann hátt sem nýtist í nútímasamfélagi.“ 

Rakel Blomsterberg og Þórhalla Laufey Guðmundsdóttir að störfum í Gjábakka.
Rakel Blomsterberg og Þórhalla Laufey Guðmundsdóttir að störfum í Gjábakka. Mynd/Þórhalla Laufey Guðmundsdóttir

 

Þátttaka Hljóðbókasafnsins 

Hugmynd teymisins var að tengja saman annars vegar opinbera stofnun, Hljóðbókasafnið, og hins vegar eldri borgara í félagsmiðstöðinni Gjábakka. „Við tókum eftir því að Hljóðbókasafnið og Gjábakki eru hlið við hlið þannig okkur langaði að skapa samstarf þarna á milli sem gæti svo átt sjálfstætt framhaldslíf, eitthvað sem væri einfalt og gæti haldið áfram annaðhvort með okkur eða án okkar,“ segir Rakel.   

Með þátttöku Hljóðbókasafnsins verður upptökunum komið á framfæri og stuðlað að varðveislu efnis, reynslu og þekkingar til framtíðar sem annars færi forgörðum. Þar sem efnið verður opið almenningi geta fleiri en áskrifendur Hljóðbókasafnsins haft gagn og gaman af frásögnunum. Auk þess geta eldri borgarar sem taka þátt í verkefninu einnig hugsanlega upplifað valdeflingu. Að lokum vonast hópurinn til að það ýti undir umræðu um stöðu og þarfir eldri borgara. 

Rakel segir að Hljóðbókasafnið hafi verið mjög áhugasamt og aðstoðað með klippingar, hljóðhreinsun og annað slíkt. Viðtölin voru síðan tekin upp í samvinnu við starfsfólk í félagsmiðstöðinni Gjábakka, í umhverfi sem eldri borgurum leið vel í. 

Myndin sýnir Elísabetu Sveinsdóttur, sem sagði meðal annars frá störfum …
Myndin sýnir Elísabetu Sveinsdóttur, sem sagði meðal annars frá störfum sínum sem bílfreyja. Mynd/Þórhalla Laufey Guðmundsdóttir

 

Hversdagsleikinn dýrmætur  

Rakel segir hópinn hafa sóst eftir sögum um hversdagsleika eldri borgara. „Okkur langaði fyrst og fremst að fanga hversdagsleikann. Það eru svo breyttir tímar og þetta getur glatast, hversdagsleikinn er dýrmætur.“  

Rakel segir frásagnirnar hafa verið bæði margar og fjölbreyttar. Á félagsmiðstöðinni vildu margir  taka þátt en voru ekki vissir hvort þeir gætu það. „Þeim fannst flestum eins og þeir hefðu ekkert merkilegt að segja, en um leið og þeir byrjuðu að ræða gamla tíma kom í ljós að þeir sátu á mjög áhugaverðum frásögnum.“ 

Sem dæmi nefnir Rakel frásögn Sigurlaugar Ó. Guðmundsdóttur skáldkonu. Sigurlaug sagði frá því þegar gámur fullur af appelsínum brotnaði á höfninni í Reykjavík. „Pabbi Sigurlaugar bretti buxnaskálmarnar sínar upp og tíndi eins mikið af appelsínum í þær og hann gat borið og batt svo fyrir, síðan dreif hann sig með þær heim. Þá var eins og jólin hefðu komið snemma,“ segir Rakel.    

Annað dæmi er frásögn Elísabetar Sveinsdóttur sem fæddist árið 1929. Hún sagði meðal annars frá flutningi sínum frá Borgarfirði eystri til Reykjavíkur. „Það tók hana og fjölskyldu hennar viku að sigla þar sem bannað var að sigla á nóttinni á þeim árum,“ segir Rakel. Þegar Elísabet flutti til Reykjavíkur fór hún fyrst í skóla, en síðar vann hún sem bílfreyja. „Hún var bílfreyja í kringum 1950 hjá strætó. Þar var hún í einkennisbúningi og sá um að rukka fargjöld og tilkynna farþegum hvert næsta stopp væri. Þá kostaði 1,20 krónur í strætó.“  

Þriðju frásögnina sem má nefna var upprifjun Sigurgeirs Jóhannssonar sem fæddist í  Vestmannaeyjum árið 1927. Hann sagði frá vinnu sinni sem unglingur en meðal annars vann hann sem sendill í verslun og flutti þá vörur heim til fólks á reiðhjóli, allt upp í fimmtíu kílóa hveiti- og sykursekki. 

Eldri borgarar jákvæðir og áhugasamir

Konurnar á félagsmiðstöðinni voru opnari fyrir viðtölum en karlarnir. „Það þurfti að sannfæra þá aðeins meira. Konur voru í meirihluta í félagsmiðstöðinni en í frásögnunum var ekki mikill munur á hvað kynin völdu sem viðfangsefni,“ segir Rakel 

Upptökurnar voru eðlilega misjafnar að sögn Rakelar. „Sumpart fannst mér að viðmælendurnir áttuðu sig ekki á hvað þeir bjuggu yfir mikilvægri vitneskju og hvað hversdagsleikinn er okkur mikilvægur. Þeir áttuðu sig ef til vill ekki á því hvað við, sem yngri erum við, vitum lítið um þeirra kynslóð og að hugsanlega finnist okkur þeirra reynsla áhugaverð.“  

Að sögn Rakelar fannst eldri borgurum gaman að segja frá lífi sínu. „Allir voru mjög jákvæðir. Við erum komin með enn fleiri einstaklinga sem vilja endilega fá að segja sögu sína. Eldra fólkið hefur líka verið mjög duglegt að benda á aðra úr sínum aldurshóp.“  

Rakel vonast til að verkefnið eigi sér framtíð. Upptökurnar verða nú geymdar á Hljóðbókasafninu og verða opnar öllum á vefsíðu þess. Hvað varðar áframhald á upptökum af frásögnum segir hún það óljóst. „Við viljum auðvitað safna í sarpinn. Vonandi er þetta einungis sýnishorn af upphafi stærra verkefnis.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert