120 lögreglumenn á vakt vegna leiksins

mbl.is/Hanna

Alls tóku um 120 lögreglumenn þátt í aðgerðum lögreglunnar í tengslum við landsleik Íslands og Króatíu sem fram fór í gærkvöld. Kvöldið fór nokkuð vel fram að sögn lögreglu en öflug gæsla verður einnig á leik íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu sem mætir liði Brasilíu í vináttulandsleik á Laugardalsvelli á morgun.

Sameiginlegt viðbúnaðarskipulag lögreglunnar á Laugardalsvelli í gær voru lögreglumenn frá sérsveit ríkislögreglustjóra, lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, sem og fulltrúar frá lögreglunni á Norðurlandi eystra og af Suðurnesjum. „Lögreglan er bara ein heild þannig að þegar að á reynir þá bara komum við fram sem ein heild,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

„Í aðgerðinni allri hafa verið svona sirka 120 lögreglumenn. En á leiknum sjálfum, ætli það hafi ekki verið eitthvað í kringum 100,“ segir Ásgeir. Því til viðbótar voru á svæðinu starfsmenn og gæsla á vegum KSÍ.

Veitti ekki af fleiri lögreglumönnum

Lög­regl­an á höfuðborg­ar­svæðinu óskaði fyrr í ár eft­ir áhættumati ríkislögreglustjóra vegna mann­frekra viðburða í sum­ar. Seg­ir Ásgeir að bæði lög­reglu­menn frá rík­is­lög­reglu­stjóra og öðrum embætt­um komi að lög­gæslu hér á landi og sér­sveit­ar­menn séu hluti af lög­gæsluskipu­lagi lands­ins við stóra viðburði eins og á leiknum í gær, í litahlaupinu á laugardaginn, á 17. júní, menn­ing­arnótt og í hinseg­in göng­unni  svo dæmi séu tekin.

„Við erum að spila úr því sem við höfum og það hefur gengið hingað til en ég get ekki leynt því að við gætum alveg notað fleiri lögreglumenn,“ segir Ásgeir, spurður hvort lögreglan hafi bolmagn til að halda uppi svo öflugri gæslu á fjölmennum viðburðum í borginni í sumar.

Í því sambandi bendir hann á að ríkislögreglustjóri hafi tekið það fram í skýrslu fyrir nokkrum árum að lögreglumenn í landinu þyrftu að vera nokkrum hundruðum fleiri en raun bæri vitni. „Það hefur held ég ekkert breyst,“ segir Ásgeir. „Ég man nú ekki alveg þessar tölur og hvernig þær standa núna miðað við mannfjölda […] en þetta voru einhver hundruð lögreglumanna sem að hann taldi vanta til að ástandið væri viðunandi.“

Það er lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sem tekur ákvörðun um það hvernig löggæslu er háttað í umdæminu hverju sinni, nema ef atburðurinn er þess eðlis að ríkislögreglustjóri ákveði að taka við að sögn Ásgeirs. „En hins vegar náttúrlega er megnið af sérsveitinni staðsett á höfuðborgarsvæðinu þannig að ef við teljum að við getum nýtt okkur styrk hennar þá óskum við eftir að þeir komi að því löggæsluskipulagi sem við erum að vinna að,“ segir Ásgeir.

Íslenskir lögreglumenn í ómerktri bifreið að loknum landsleik Íslands og …
Íslenskir lögreglumenn í ómerktri bifreið að loknum landsleik Íslands og Króatíu í gærkvöld. mbl.is/Stefán Einar

Ómerktar bifreiðar ekki venjan

Að leik loknum í gærkvöld sást til stórrar ómerktrar sendibifreiðar sem þétt setin var íslenskum lögregluþjónum. Spurður um bifreiðina segir Ásgeir það eiga sér eðlilegar skýringar, það sé alls engin stefna að lögreglan notist við ómerktar bifreiðar heldur sé slíkt aðeins í undantekningatilfellum og hefur verið gert í nokkur ár.

„Fyrir langa löngu þá áttum við til, lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, 10 stóra lögreglubíla. Í dag eigum við fjóra [...] þannig að þegar við erum með svona stórt skipulag í gangi þá leigjum við bara svona bíla frá bílaleigunum til að flytja mannskap,“ útskýrir Ásgeir. Um sé að ræða bíla sem óhagkvæmt sé fyrir lögregluna að eiga og reka fyrir þau fáu skipti sem á þarf að halda og því séu þeir einungis leigðir út þegar stórar aðgerðir eru í gangi.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert