Óvíst með yfirheyrslur í dag

Lögreglan á vettvangi í Mosfellsdal í síðustu viku.
Lögreglan á vettvangi í Mosfellsdal í síðustu viku. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Einn sexmenninganna sem handteknir voru í tengslum við manndrápsmálið í Mosfellsdal í síðustu viku var yfirheyrður um helgina. Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um hvort yfirheyrslur fari fram í dag. Sexmenningarnir eru enn allir í haldi lögreglu.

Fólkið, fimm karlar og ein kona, var handtekið vegna málsins á miðvikudagskvöld í síðustu viku. Karlarnir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 23. júní en konan til 16. júní.

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn segir í samtali við mbl.is í dag að enn eigi eftir að varpa fullu ljósi á hlutverk hvers og eins í árásinni sem leiddi til dauða Arnars Jónssonar Aspar. „Rannsóknin gengur meðal annars út á það að átta sig á aðild hvers og eins, hvort hún sé [til staðar] og hver þá.“

Fram hefur komið í fréttum að árásin tengist fíkniefnaskuld. „Við viljum ekki staðfesta það á einn eða annan hátt. Ástæður árásarinnar er eitt af því sem við þurfum að upplýsa,“ segir Grímur og ítrekar að engar upplýsingar verði gefnar um hvað fram komi í yfirheyrslum, hvort sem er yfir vitnum eða sakborningum.

Arnar Jónsson Aspar var fæddur árið 1978. Árásarmennirnir bönkuðu upp á hjá honum að heimili hans í Mosfellsbæ á miðvikudagskvöld. Sambýliskona hans og afi hennar voru meðal þeirra sem urðu vitni að árásinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert