Týndist í flugvél á Spáni

Kötturinn Gutti Diego hefur verið týndur í viku.
Kötturinn Gutti Diego hefur verið týndur í viku. Ljósmynd/Hafliði Kristinsson

Kötturinn Gutti Diego hefur verið týndur frá 6. júní, en hann týndist á ferðalagi frá Íslandi til Spánar. Eigendur Gutta Ólína Björk Kúld Pétursdóttir og maður hennar eru nýflutt til Spánar og Hafliði Kristinsson, sonur Ólínu, var á leið í frí til þeirra ásamt kærustu sinni og var Gutti með þeim í för.

Leituðu í 5 klukkustundir samfellt

Í samtali við mbl sagði Ólína að þau hafi farið í gær, sunnudag, á eigin vegum á flugvöllinn til þess að leita að Gutta. Þau fengu þar vesti og lítinn golfbíl og keyrðu um í 5 klukkustundir án árangurs. „Hann sést ekki og það talar enginn við okkur“ sagði Ólína. Fjölskyldunni gekk erfiðlega að ná tali af starfsmanni hjá Primera air, en það er flugfélagið sem flogið var með til Spánar. Þau náðu svo tali af starfsmanni þar í dag. 

Hafliði, sonur Ólínu, sagði blaðamanni frá því að í upphafi þegar flugið var bókað var honum og Sædísi, kærustu hans, úthlutuð ákveðin sæti en þau hafi svo verið færð um nokkrar sætaraðir þegar þau bókuðu Gutta með í flugið.

Skilaði sér aldrei inn í farþegarými

Þegar Hafliði hafði samband við Primera þá var honum tjáð að það væri ekkert mál að ferðast með köttinn og hann mætti vera hjá þeim inni í farþegarýminu og greiddu þau tæpar 8.000 krónur aukalega fyrir það. En svo fór að Gutti skilaði sér aldrei inn í farþegarýmið til Hafliða.

Við innritun var Hafliða tjáð að hann þyrfti að fara sjálfur inn í vél og Gutti kæmi svo til þeirra þangað, eftir að búið væri að skrá hann inn. Í kjölfarið var Hafliða afhentur lítill límmiði sem átti svo að fara á búrið. Hafliði fer því sína leið og þegar hann stendur í röð að bíða eftir því að fara um borð í vélina kemur hann auga á Gutta og spyr starfsmann hvort hann komi svo ekki örugglega í farþegarýmið til sín eins og um var rætt, því er játað og honum sagt að fara um borð. Hafliði ákveður því að fara um borð og treystir því að kötturinn skili sér sömu leið.

Litli límmiðinn sem Hafliði fékk á flugvellinum er enn ónotaður.
Litli límmiðinn sem Hafliði fékk á flugvellinum er enn ónotaður. Ljósmynd/Hafliði Kristinsson

Fríið breyttist í martröð

Flugferðin var mjög óþægileg fyrir Hafliða en hann hafði miklar áhyggjur af Gutta og spurði margsinnis um hann og hvernig honum liði og alltaf var honum tjáð að það væri í lagi með köttinn. Fljótlega eftir lendingu koma starfsmenn til Hafliða og segja honum að hann þurfi að bíða vegna þess að kötturinn hafi sloppið niðri í lest. Segjast starfsmenn ætla að fara og sækja vesti fyrir Hafliða svo hann geti farið með þeim niður og athugað málið. Eftir 10-15 mínútna bið koma þeir aftur tjá þá Hafliða að Gutti hafi sloppið úr vélinni. Hafliða verður mjög brugðið við þessar fréttir og var hann mjög ósáttur, enda vissi hann að þessar fréttir yrðu mikið áfall fyrir móður hans og mann hennar, eigendur Gutta. „Þau jafna sig ábyggilega aldrei“, sagði Hafliði.

Ferðalagið sem átti að vera áhyggjulaust frí hefur því breyst yfir í það vera einungis stress og miklar áhyggjur, allt frá upphafi ferðar á Íslandi. Hafliði vonar að fjölskyldan fái svör og einhver beri ábyrgð á þessu. „Þetta er ekkert grín, þetta er bara mjög alvarlegt“, sagði Hafliði í samtali við mbl.

Mikil umræða hefur verið um hvarf Gutta í Facebook-hóp sem telur yfir 16.000 manns, þar sem margir hafa boðist til þess að aðstoða fjölskylduna við að þrýsta á Primera að gefa skýr svör um framgang mála. Hópurinn ber heitið: Kettir á Facebook, aðdáendur katta og allir dýravinir.

Gutta er sárt saknað af fjölskyldunni.
Gutta er sárt saknað af fjölskyldunni. Ljósmynd/Hafliði Kristinsson

Blaðamaður hafði samband við Primera air við vinnslu fréttar en ekki fengust svör í tengslum við málið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert