300 neyðarvegabréf voru gefin út

Þjóðskrá Íslands sér um útgáfu vegabréfa hér á landi.
Þjóðskrá Íslands sér um útgáfu vegabréfa hér á landi. mbl.is/Golli

Útgáfa vegabréfa hjá Þjóðskrá er að komast í samt horf eftir tafir sem urðu í kjölfar bruna hjá framleiðanda skilríkjanna í Kanada. Um 300 neyðarvegabréf voru gefin út til þeirra sem ekki voru með gild ferðaskilríki og þurftu að ferðast fyrstu dagana í júní. Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár Íslands, segir að allir hafi komist leiðar sinnar. 

Framleiðandi vegabréfanna í Kanada varð fyrir tjóni í eldsvoða á síðasta ári. Eftir að framleiðslan hófst að nýju þurfti að vinna á uppsöfnuðum pöntunum og því tafðist afgreiðsla vegabréfa hingað til lands um mánuð.

„Við erum nú búin að fá sendingar frá framleiðandanum og erum byrjuð að gefa út vegabréf eftir venjulegu fyrirkomulagi,“ segir Margrét í samtali við mbl.is í dag. „Allir fá þá almenn vegabréf útgefin.“

Enn er verið að vinna úr umsóknum sem safnast hafa upp. „Þetta er nánast komið á eðlilegan afgreiðslutíma,“ segir Margrét. Þeir sem sækja um núna eiga von á ferðaskilríkjum sínum innan fjórtán daga. Álagið á vegabréfaútgáfunni er alltaf meira yfir sumarmánuðina en á veturna. 

„Við stefnum að því að stytta [afgreiðslutímann] og það kemur í ljós á næstu 2-3 vikum hvort okkur tekst það, en það er vissulega markmiðið hjá okkur.“

Í því millibilsástandi sem skapaðist þurfti fólk sem var að sækja um vegabréf að fylla út eyðublað um brottfararstað. Á því gerist ekki lengur þörf.

Um 300 neyðarvegabréf voru gefin út á meðan þessu tímabundna ástandi stóð. Margrét segir þau í raun hafa verið færri en starfsmenn Þjóðskrár höfðu búist við. „Á endanum voru þau mun færri en við reiknuðum með því að brottfarardagurinn var oft ekki mjög nálægur.“

Þeir sem fengu neyðarvegabréf fá nú almenn vegabréf í sínar hendur. 

Um 300 manns fengu útgefin neyðarvegabréf í maí og júní.
Um 300 manns fengu útgefin neyðarvegabréf í maí og júní.

Margrét segir nauðsynlegt að útgáfa vegabréfa sé í lagi. Spurð hvort gripið verði til sérstakra fyrirbyggjandi aðgerða svo að svona ástand skapist ekki aftur svarar Margrét að erfitt sé að bregðast við ófyrirséðum vanda sem þessum. „En það sem við getum gert er að auka við öryggisbirgðir okkar. Það er það sem er framundan hjá okkur, að hafa þessar birgðir meiri en áður.“

Þjóðskrá vann eftir aðgerðaáætlun eftir að ljóst var að útgáfu bréfa myndi seinka. „Við náðum að leysa öll tilvik sem komu upp,“ segir Margrét og bætir við að enginn virðist hafa lent í alvarlegum vandræðum vegna þessa. „Það komust allir leiðar sinnar, ef upplýsingar voru ófullnægjandi þá brugðumst við við hverju einstaka tilviki sem upp kom. Og það leystist úr öllu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert