Vill sem minnstan vopnaburð

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mín skoðun er sú að við eigum auðvitað að halda í það að vera með sem minnstan vopnaburð hér á götum.“ Þetta segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sem ræddi vopnaburð lögreglu og þjóðaröryggismál við þá Svala og Svavar á K100 í morgun. Ef breytingar eigi sér stað varðandi vopnaburð lögreglunnar telur Katrín mikilvægt að um það sé rætt í samfélaginu til að fólk sé upplýst um hvers vegna lögregla búist vopnum í auknum mæli.

„Við vitum auðvitað af þessum hryðjuverkum sem hafa verið framin í löndunum í kringum okkur en það breytir því ekki að það hefur ekki verið breytt neinu viðbúnaðarstigi á Íslandi. Það er bara ennþá svona svokallað óvissustig og það liggur alveg fyrir opinberlega,“ sagði Katrín, spurð hvort það lægi ekki í augum uppi hvers vegna gæsla hafi verið hert.

„Ég held að við þurfum að eiga svona umræðu, bæði meira í samfélaginu, og líka spyrja okkur hvort að við getum gert þessa hluti öðruvísi,“ sagði Katrín jafnframt.

Hún kveðst hafa fengið sterk viðbrögð frá mörgum sem hugnist ekki aukinn vopnaburður lögreglu og finnist ekki þægilegt að vita af alvopnaðri lögreglu í kringum fjölmennar samkomur. Þá kveðst hún ekki síður vilja ræða betur um það að styrkja almenna löggæslu í landinu. „Því við vitum náttúrlega að hún er undirfjármögnuð og vantar bara mannskap og fjármuni,“ sagði Katrín.

Velvilji í garð lögreglu

„Það er ákveðin prinsipp afstaða í því hversu vopnuð lögreglan á að vera, og hversu mikið út á við það á að vera og hversu miklum hlutverkum sérsveitin er að sinna á móti almennu löggæslunni,“ sagði Katrín ennfremur. Ítrekaði hún jafnframt að hún telji Íslendinga almennt vera mjög velviljaða í garð lögreglunnar.

Þá segir Katrín, að þegar um einhvers konar aukinn viðbúnað sé að ræða í nágrannalöndum, þá sé fólk upplýst sérstaklega um það. „Bæði er fólk upplýst bara með fréttum og skiltum úti á götu og þá er það líka oft þannig að þá er venjuleg löggæsla mjög sýnileg en vopnuð lögregla kannski meira til hliðar,“ sagði Katrín.  

„Við viljum líka búa við þá tilfinningu að við búum í frjálsu ríki og sem betur fer gerum við það. [...] Þannig það skiptir máli hvernig þetta er gert,“ sagði Katrín Jakobsdóttir í morgunþætti Svala og Svavars á K100 í morgun.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert