„Þetta er óvanalegt“

Kumlateigur við Dysnes í Eyjafirði.
Kumlateigur við Dysnes í Eyjafirði. Ljósmynd/Hildur Gestsdóttir

Annað bátskuml fannst í Dysnesi í dag en í gær fannst víkingasverð á botni hins bátskumlsins. Alls hafa fundist fjögur kuml á þessum forna kumlateigi sem er líklega frá 9. eða 10. öld. „Þetta er óvanalegt og mögulegt að við finnum meira,“ segir Hildur Gestsdóttir fornleifafræðingur sem stýrir uppgreftinum í Dysnesi, sem hófst í síðustu viku. 

Rúv greindi fyrst frá í kvöldfréttum sjónvarps. 

Bátskumlin liggja enda í enda. Þetta sem fannst í dag er mun betur farið en hið fyrra það er að segja sjórinn hefur ekki leikið það eins grátt þó eitthvert rof hafi orðið á því. Enn á eftir að grafa það upp að fullu og því miklar líkur á að eitthvað eigi eftir að koma í ljós þegar torfhaugnum sem liggur yfir því verður lyft upp.

Uppgröfturinn er forvitnilegur fyrir margra hluta sakir en eingöngu eru um 10 bátskuml þekkt á Íslandi. Þar af hafa fundist tvö bátskuml í sama kumlareit á Dalvík. 

Hildur segir erfitt að fullyrða hvort annað sverð muni koma í ljós. Hún er samt vongóð í ljósi þess að allt bendi til þess hvorugt bátskumlanna tveggja hafi verið opnað og rænt. Dæmi eru um að kuml hafi verið opnuð tiltölulega snemma eftir að þau voru tekin og þau rænd. Spurð hvort það hafi verið gert í þeim tilgangi að auðgast segir Hildur ekki vitað hvað bjó að baki. 

Tvö kuml í ræningjagryfju

Tvö önnur kuml hafa fundist, annað þeirra í lok dags. Bæði þessi kuml eru í svokallaðri ræningjagryfju sem er um sex metrar á lengd. Enn sem komið er hafa ekki fundist nein verðmæti í þeim en í öðru kumlinu fannst kjálki úr hundi og tönn.

Núna er búið að opna svæði sem er um 30 metrar á lengd. „Við erum að hreinsa fram og uppgröftur er ekki formlega hafinn,“ segir Hildur. Búið er að grafa um 20 sentímetra ofan í jörðu og því er talsverðar líkur á að fleira forvitnilegt eigi eftir að koma í ljós. 

Fundurinn hefur vakið talsverða athygli og hyggst mennta- og menningarmálaráðherra, Kristján Þór Júlíusson, skoða uppgröftinn í Dysnesi í fyrramálið.

Þess má einnig geta að á morgun mun forvörður vinna að því að lyfta sverðinu sem fannst í gær upp. Það sverð er mjög illa farið og er í mörgum bútum.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert