Jóhannes höfðar mál gegn ríkinu

Jóhannes Rúnar Jóhannsson.
Jóhannes Rúnar Jóhannsson. Ljósmynd/Aðsend

Jóhannes Rúnar Jóhannsson, hæstaréttarlögmaður, hefur ákveðið að höfða mál gegn íslenska ríkinu til að fá það staðfest að ranglega hafi verið staðið að málum af hálfu dómsmálaráðherra og Alþingis við skipun í embætti dómara í Landsrétt. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá honum.

Ástráður Haraldsson, hæstaréttarlögmaður, hefur áður höfðað mál gegn ríkinu vegna skipunar í embætti dómara í Landsrétt. 

„Það er sannfæring mín að málsmeðferð dómsmálaráðherra og Alþingis við val á umsækjendum til skipunar í embætti dómara við Landrétt hafi brotið í bága við lög. Ég trúi því ekki að þriðja grein ríkisvaldssins, dómsvaldið, muni láta það viðgangast átölulaust," segir Jóhannes Rúnar í tilkynningunni. 

Hann bætir við: 

„Ákvörðun dómsmálaráðherra um að víkja frá niðurstöðum faglegrar dómnefndar um hæfni umsækjenda um embætti dómara við Landsrétt var hvorki tekin með þeim hætti, né á grundvelli þeirra forsendna sem lög áskilja. Alþingi hefði átt að bregðast við og hafna breyttri tillögu ráðherrans. Meirihluti Alþingis brást því hlutverki sínu.

Ég, sem umsækjandi um embætti dómara við Landsrétt, hæstaréttarlögmaður og borgari í þessu landi, get ekki sætt mig við að réttur sé brotinn á einstaklingum, eins og hér háttar til, án þess að bregðast við. Háttsemi af þessu tagi á ekki að líðast.

Ég hef því tekið ákvörðun um að höfða dómsmál á hendur íslenska ríkinu til að fá það staðfest að ranglega hafi verið staðið að málum af hálfu dómsmálaráðherra og Alþingis við skipun í embætti dómara við Landsrétt.“ 

Alþingi samþykkti til­lögu dóms­málaráðherra um að skipta út fjór­um af þeim 15 sem hæfis­nefnd taldi hæf­asta í starfið fyr­ir fjóra aðra úr hópi um­sækj­enda. Jóhannes Rúnar og Ástráður voru á meðal þeirra fjögurra sem ráðherra skipti út. 

Ógagnsær og óljós rökstuðningur

Jóhannes Rúnar segir í tilkynningu sinni að rökstuðningur dómsmálaráðherra fyrir því að víkja frá niðurstöðu nefndarinnar standist enga efnislega skoðun. Hann segir að rökstuðningur ráðherra sé almenns eðlis, ógagnsær og óljós. „Hvergi er sem dæmi vikið að því hvers vegna ráðherra taldi rétt að ganga framhjá þeim tilteknu fjórum umsækjendum sem hún gerði né hvers vegna hún kaus að velja nákvæmlega þá fjóra umsækjendur í þeirra stað sem hún valdi, fremur en til að mynda aðra umsækjendur," segir hann. 

„Rétt er að undirstrika að sjónarmið um jafna stöðu karla og kvenna voru ekki meðal þeirra raka sem dómsmálaráðherra vísaði til í rökstuðningi sínum og ættu þar af leiðandi ekki að koma til frekari skoðunar í þessu samhengi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert