Bílstjóri Ferðaþjónustu fatlaðra sýknaður

Maðurinn starfaði hjá Ferðaþjónustu fatlaðra frá 2012 til 2013.
Maðurinn starfaði hjá Ferðaþjónustu fatlaðra frá 2012 til 2013. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hæstiréttur hefur sýknað karlmann sem ákærður hafði verið fyrir að hafa, sem bílstjóri hjá Ferðaþjónustu fatlaðra, í fjögur skipti haft samræði og önnur kynferðismök við konu sem ekki gat spornað við verknaðinum sökum andlegrar fötlunar.

Héraðsdómur Reykjaness hafði einnig sýknað manninn af þeim ákærulið, þar sem ekki þótti hafið yfir allan vafa að árásirnar hefðu átt sér stað. Hins vegar taldist sannað að maðurinn hefði káfað innanklæða á brjóstum hennar og kynfærum í eitt skipti, hinn 14. mars 2013, þótt ekki lægi fyrir hvort það hefði verið utandyra eða í bifreið á vegum Ferðaþjónustu fatlaðra.

Var maðurinn því dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi í héraðsdómi.

Engra upplýsinga aflað

Hæstiréttur sýknaði hins vegar manninn í dag af öllum ákæruliðum, en ákæruvaldið hafði fyrir réttinum unað héraðsdómi að því leyti sem sýknað var en annars krafist þess að refsing mansins yrði þyngd.

Í dómi Hæstaréttar var meðal annars vísað til þess að engra upplýsinga hefði verið aflað um akstur mannsins með konuna á öðrum dögum en 14. mars 2013. Eins og málið lægi fyrir réttinum hverfðist málið því um það hvort staðfesta ætti niðurstöðu héraðsdóms um að maðurinn hefði þennan dag gerst sekur um þessa háttsemi.

Hæstiréttur snýr við dómi Héraðsdóms Reykjaness í málinu.
Hæstiréttur snýr við dómi Héraðsdóms Reykjaness í málinu. mbl.is/Þórður Arnar

„Napurt úti og rökkur“

Sjálf bar konan fyrir héraðsdómi að maðurinn hefði brotið gegn henni. Hann hefði þuklað brjóst hennar, sem hann hafi kallað „kókoshnetur“, og kynfæri hennar innan klæða. Áður hefði hann þá gyrt niður buxur hennar og reynt að losa peysuna hennar.

„Hefði ákærði stungið puttanum inn í „kvísuna“ á henni. Spurð hvort ákærði hefði stungið einhverju öðru inn í „kvísuna“ svaraði brotaþoli því neitandi. Spurð hvort þetta hafi gerst oft taldi brotaþoli að þetta hefði gerst í mesta lagi tvisvar, einu sinni inni í bifreiðinni og einu sinni fyrir utan bifreiðina,“ segir í dómi héraðsdóms.

„Beðin um lýsa því hvernig atvikum hafi verið háttað fyrir utan bifreiðina, kvaðst brotaþoli hafa losað öryggisbelti sitt sjálf og gengið út, en hún hefði ekki verið komin heim. Beðin um að lýsa því hvar þau hefðu verið, bar brotaþoli að þau hefðu verið í grasi, í laut, hún hefði ekki þekkt staðinn neitt. Spurð hvort ákærði hefði farið úr fötum sínum svaraði brotaþoli því neitandi en hún sjálf hefði verið í flegnum bol. Brotaþoli bar aðspurð að það hefði verið napurt úti og rökkur,“ segir í dómnum.

Sá eitthvað detta, „eins og lítið kusk“

Fram kemur í vitnisburði hennar að maðurinn hafi óskað eftir því einu sinni að hún væri í gegnsæjum fötum. Þá hafi hann beðið hana að koma í flegnum fötum, svo hann gæti betur séð brjóstin á henni og „vinkonu“.

„Spurð hvort það væri rétt að ákærði hefði ekki sett typpið inn í kynfæri hennar, kvað hún það rétt. Spurð hvort hún hefði séð sæði koma úr typpi ákærða bar brotaþoli að hafa séð það einu sinni. Hefði það gerst þegar ákærði hefði verið að fróa sér inni í bifreiðinni og hefði hún þá allt í einu séð eitthvað detta, eins og lítið kusk. Hefði hún dustað það af, enda haldið það vera kusk, en í raun hefði það verið sæði frá honum,“ sagði meðal annars í dómi héraðsdóms.

Akstursleið mannsins eðlileg

Að virtum gögnum málsins taldi Hæstiréttur að sá akstur sem maðurinn hefði átt að sinna, sem síðasta verkefni umrædds dags, renndi engum stoðum undir það að hann hefði skilað konunni seinna á áfangastað en eðlilegt mætti telja, miðað við þá umferð sem gera mætti ráð fyrir á þeim tíma dags. Akstursleið hans hefði þá verið eðlileg með hliðsjón af fyrirliggjandi verkefnum.

Hæstiréttur skírskotaði þá til þess að þrjú ár hefðu liðið frá því að ætluð brot hefðu verið framin og þar til aðalmeðferð málsins fór fram í héraði. Það hefði gert það að verkum að framburður konunnar og vitna fyrir dómi hefði verið rýr um atvik málsins.

Þótti því ekki komin fram nægileg sönnun um að maðurinn hefði gerst sekur um þá háttsemi sem hann var sakfelldur fyrir í héraðsdómi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert