Færa á valdið til dómstóla

Ungir afbrotamenn njóta síður úrræða samfélagsþjónustu vegna sérstöðu íslenska fyrirkomulagsins.
Ungir afbrotamenn njóta síður úrræða samfélagsþjónustu vegna sérstöðu íslenska fyrirkomulagsins. mbl.is/Golli

Ungir afbrotamenn eiga þess síður kost að fullnusta refsingu sína með samfélagsþjónustu vegna þeirrar sérstöðu Íslands að ákvörðunarvaldið um samfélagsþjónustu liggur hjá framkvæmdarvaldinu en ekki dómsvaldinu. Jón Þór Ólason, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, segir fyrirkomulagið hér á landi vera einstakt.

„Hér er farin svokölluð stjórnsýsluleið, þ.e. stjórnvöld, sem í þessu tilviki eru Fangelsismálastofnun, taka ákvörðun um það hvort dómþoli fær að taka út refsingu sína með samfélagsþjónustu. Þetta er að mínu mati ekki í anda þeirrar grundvallarreglu íslensks réttar að dómstólar ákvarði refsingar. Í öllum löndum sem við berum okkur saman við er ákvörðun um samfélagsþjónustu í höndum dómstóla,“ segir Jón Þór og bætir því við að hér sé í raun og veru framkvæmdarvaldið að breyta refsiákvörðun dómstóla, þ.e. ákvarða dómþola ný viðurlög.

Jón Þór Ólason.
Jón Þór Ólason. mbl.is/Jim Smart

„Stjórnarskráin kveður á um greiningu ríkisvalds í löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald og tilgreinir svo sérstaklega sjálfstæði dómsvalds frá handhöfum framkvæmdarvaldsins. Þá má færa fyrir því rök að íslenska fyrirkomulagið sé í andstöðu við kröfur Mannréttindasáttmála Evrópu um að refsireglur skuli vera bæði aðgengilegar og fyrirsjáanlegar.“

Bent hefur verið á að þrátt fyrir að ákvörðun um samfélagsþjónustu sé hjá stjórnvöldum er unnt að bera hana undir dómstóla. Jón Þór segir það ekki fullnægjandi og bendir á að úrskurðarvald sé kjarni dómsvalds.

„Sú staða getur komið upp að dómþoli rjúfi skilyrði samfélagsþjónustu og getur Fangelsismálastofnun þá tekið einhliða ákvörðun um að viðkomandi afpláni eftirstöðvar dómsins. Með hliðsjón af þeim réttindum sem tryggð eru í Mannréttindasáttmála Evrópu er meira réttaröryggi fólgið í því að vald þetta sé hjá dómstólum.“

Ungir brotamenn útundan

Samfélagsþjónusta nýtist ekki ungum afbrotamönnum og er það áhyggjuefni að sögn Jón Þórs.

„Já, því miður nýtist þetta úrræði ekki ungum afbrotamönnum sem skyldi. Það vantar uppbyggileg úrræði fyrir unga brotamenn í íslenskt viðurlagakerfi og erlendis hefur t.a.m. sérstaklega verið bent á uppeldislega þýðingu samfélagsþjónustu fyrir unga afbrotamenn.“

Hann bendir jafnframt á að ungir afbrotamenn, allt eftir eðli afbrotsins, fái almennt skilorðsbundna dóma eða skilorðsbundna frestun ákæru og uppfylli því ekki skilyrði fyrir samfélagsþjónustu.

„Ef almannahagsmunir mæla ekki gegn því má fullnusta allt að 12 mánaða óskilorðsbundna fangelsisrefsingu með ólaunaðri samfélagsþjónustu, minnst 40 klukkustundir og mest 480 klukkustundir. Þar sem ungir afbrotamenn fá að jafnaði skilorðsbundnar refsingar nýtist úrræðið þeim ekki. Leiðist þeir út í frekari brot er hætt við að alvarleiki afbrotsins eða hin dæmda refsing falli utan skilyrðanna. Ef dómstólar hefðu heimild til að dæma samfélagsþjónustu, annaðhvort sem sjálfstæða refsitegund eða sem sérstakt skilyrði fyrir skilorðsdómi, mætti veita ungum brotamönnum meira aðhald og beina sumum hugsanlega inn á rétta braut.“

Dómstólar ódýrari

Í greinargerð með frumvarpi til laga um samfélagsþjónustu frá 1994 kemur fram að reikna megi með að kostnaður við framkvæmd verði mun lægri hjá stjórnvöldum heldur en ef sú leið væri farin að leggja ákvörðun á dómstóla í hvert skipti. Þetta telur Jón Þór ekki standast nánari skoðun.

„Samkvæmt núgildandi reglum eru málsmeðferðarferlin í raun og veru tvö. Ferlið getur því orðið bæði mjög langt og dýrt ef dómþoli ákveður að bera lögmæti ákvarðana stjórnvalda undir dómstóla.“

Að mati Jóns Þórs er mun hagkvæmara að einn aðili, þ.e. dómstólar, taki ákvörðun um samfélagsþjónustu við uppkvaðningu dóms.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert