Félagsbústaðir firra sig ábyrgð á myglu

Það fer ekki á milli mála að mygla hefur myndast …
Það fer ekki á milli mála að mygla hefur myndast í horni svefnherbergisins. Mynd/Guðbjörg Magnúsdóttir

Fljótlega eftir að Guðbjörg L. Magnúsdóttir flutti inn í leiguíbúð í eigu Félagsbústaða hf. fyrir þremur árum fór hún að taka á eftir dökkum bletti á vegg í svefnherbergi íbúðarinnar, sem stækkað hefur hægt og bítandi. Hún er sannfærð að um myglu sé að ræða, enda hefur hún fundið fyrir óútskýrðri vanlíðan í langan tíma.

Guðbjörg hefur kvartað yfir myglunni og það hefur verið staðfest af matsmanni á vegum Félagsbústaða að rakastig í herberginu sé of hátt. Í raun kemur það einnig fram í matinu að talið sé að um myglu sé að ræða. Það er hins vegar metið sem svo að myglan sé sjálfsköpuð vegna umgengni leigutaka. Því firra Félagsbústaðir sig ábyrgð vegna málsins.

Íbúðin er í fjölbýlishúsi við Vallarás í Árbænum og þegar Guðbjörg fékk hana afhenta, fyrir þremur árum, leit hún vel út og ekki vottaði fyrir blettinum á veggnum. Hann kom hins vegar fram mjög fljótlega eftir að hún flutti inn. „Það var búið að mála og gera allt fínt þegar ég skoðaði íbúðina og flutti inn á sínum tíma,“ segir Guðbjörg í samtali við mbl.is. Þegar bletturinn fór að láta á sér kræla hafði hún strax samband við Félagsbústaði. Þá hefur myglu einnig orðið vart á gluggapóstum í svefnherberginu.

Matsmaður frá Félagsbústöðum mældi raka í herberginu og var rakastigið …
Matsmaður frá Félagsbústöðum mældi raka í herberginu og var rakastigið of hátt. Mynd/Guðbjörg Magnúsdóttir

„Ég og maðurinn minn tókum myndir, fórum með þær niður í Félagsbústaði og kvörtuðum. Í framhaldi kom maður frá þeim og hann mældi rakastigið. Það var fínt í stofunni en ekki í lagi í herberginu. Hann sagði okkur að opna gluggann og hafa hita á ofninum, sem við gerum yfirleitt alltaf. Hann sagði að það gæti komið raki af því það væri ekki gluggi á baðherberginu, en svefnherbergið er þar við hliðina á. Hann kom með alls konar afsakanir, en sagði að það þyrfti að þrífa vegginn og mála. Það hefur hins vegar aldrei verið haft samband við mig vegna þess.“ Guðbjörg telur að tvö ár séu liðin frá því matið var gert, en ekkert hefur verið gert varðandi blettinn á veggnum, líkt og hún skildi á matsmanninum að væri næsta skref af hálfu Félagsbústaða.

 Vanlíðan og mikið hárlos

„Mér hefur liðið undarlega lengi. Svo ég er búin að vera með mikið hárlos í langan tíma. Ég var þó ekki viss af af hverju það stafaði. Hélt jafnvel að þetta væri bara eitthvað í hausnum á mér,“ segir Guðbjörg. Eftir að hafa rætt við fólk í kringum sig og sýnt myndir af blettinum er hún hins vegar sannfærð að um myglu sé að ræða. Það komi heim og saman við líkamleg einkenni sem hún hefur fundið fyrir síðustu tvö árin.

Guðbjörg hefur fundið fyrir vanlíðan síðustu tvö ár og glímt …
Guðbjörg hefur fundið fyrir vanlíðan síðustu tvö ár og glímt við mikið hárlos. Mynd/Guðbjörg Magnúsdóttir

Guðbjörg er ekki viss með næstu skref af sinni hálfu, en hún hefur ekki í önnur hús að venda og getur því ekki farið úr íbúðinni. Hún er búin að senda tölvupóst með myndum af blettunum á Félagsbústaði til ítrekunar, en hefur engin viðbrögð fengið.

Bletturinn heldur bara áfram að að breiðast út í herberginu, að hennar sögn. „Vinkona mín reyndi að hjálpa mér að þrífa þetta en hún steyptist öll út í útbrotum. Það var kannski kæruleysi í okkur, en maður reynir að gera eitthvað,“ segir Guðbjörg.

„Umgengni leigutaka orsök myglunnar“

„Við höfnum því að það sé leki eða galli í umræddri íbúð. Skoðunarmaður okkar fann engan leka þegar hann fór á staðinn,“ segir Auðun Freyr Ingvarsson, framkvæmdastjóri Félagsbústaða í samtali við mbl.is. „Það er mat Félagsbústaða að umgengni leigutaka sé orsök myglunnar,“ bætir hann við. Ábyrðin liggi því hjá leigutaka, en en ekki Félagsbústöðum. Í svona tilfellum hafi Félagsbústaðir jafnvel áhyggjur af því að leigutaki sé að eyðileggja íbúðina með umgengni sinni.

Aðspurður segir Auðun þó aldrei hafa komið til þess að leigutökum hafi verið vísað úr íbúðum eða sagt upp leigusamningi á þessum forsendum. Þá hafi heldur aldrei verið farið í skaðabótamál gegn leigutökum vegna sjálfskapaðrar myglu og það standi ekki til.

„Við viljum frekar reyna að bjóða upp á góða fræðslu og kynna rétta umgengni,“ segir Auðun, sem bendir á að mygla geti myndast þar sem loftraki sé of hár, ekki sé loftað nógu vel út, gluggatjöld alltaf dregin fyrir og húsgögn höfð of þétt upp við veggi. Hann segir mikilvægt að fólk kynni sér hvernig koma megi í veg fyrir myglu og er hægt að nálgast slíkt fræðsluefni á heimasíðu Félagsbústaða. Þá fá leigutakar fræðsluefnið afhent við undirritun leigusamnings.

Eitt til þrjú staðfest myglutifelli á ári

Að sögn Auðunar berast Félagsbústöðum um fimm til tíu kvartanir á ári vegna hugsanlegrar myglu í húsnæði í þeirra eigu. Mygla, sökum leka eða annarra orsaka á ábyrgð húseiganda eða húsfélags, sé þó aðeins staðfest í einu til þremur tilfellum á ári.

Sé mygla staðfest og á ábyrgð leigusala er leigan í sumum tilfellum lækkuð á meðan verið er að vinna í úrbótum, ákveðnum herbergjum lokað eða fólki boðið að fara tímabundið úr íbúðinni, ef það hefur tök á. Í sumum tilfellum komi fólk hins vegar ekki aftur, enda hafi það orðið hvekkt af myglunni.

Guðbjörg segir blettinn hafa stækkað hægt og rólega síðustu þrjú …
Guðbjörg segir blettinn hafa stækkað hægt og rólega síðustu þrjú árin. Mynd/Guðbjörg Magnúsdóttir

 „Þegar svona kemur upp þá á ákveðið ferli að fara í gang, sem hefst á því að matsmaður fer á staðinn. Stundum er staðfest mygla og ef það er eitthvað sem við getum lagað þá stendur ekki á okkur að laga það. Staðfest mygla þýðir þó ekki að hún sé á okkar ábyrgð. Það getur verið að það leki utanhússklæðning og þá þarf að þrýsta á húsfélag að gera eitthvað í málunum. Stundum þurfum við að fara í hart við húsfélagið,“ útskýrir Auðun. „Í slíkum tilfellum reynum við að hreinsa þá myglu sem komin er fram í hvert skipti en þá er auðvitað ekki búið að uppræta rót vandans.“ Í öðrum tilfellum getur verið um að ræða sjálfskapaða myglu vegna umgengni, líkt og lýst var hér að framan.

„Við getum auðvitað ekki ábyrgst myglufrítt húsnæði, því myglugró berast óhjákvæmilega inn í íbúðir við eðlilega umgengni og geta dafnað þar ef umgengni er ekki rétt. Þá eru ekki til nein viðmið um það hversu mikil mygla er heimil í íbúðum. Sumt fólk er gríðarlega viðkvæmt fyrir myglu og því þarf að meta hvert einstakt tilfelli fyrir sig og takast á við tilfellin með mismunandi hætti.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert