Rannsaka ekki Landsréttarmálið að svo stöddu

Frá fyrri fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins.
Frá fyrri fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar þingsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd mun að svo stöddu ekki hefja rannsókn á verklagi við vinnslu tillögu til alþingis um skipan dómara í Landsrétt. Nefndin kom saman til fundar í morgun en aðal mál á dagskrá voru umræður um þá tillögu þingmanna Pírata um að nefndin láti rannsaka verklagið við vinnslu tillögunnar.  

Umboðsmaður Alþing­is og aðallög­fræðingur Alþing­is voru kallaðir fyrir nefndina í dag í þeim tilgangi að leggja mat á það hvort einhver hætta kynni að vera á því að það gæti truflað möguleg dómsmál ef stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd færi strax af stað með rannsókn.

„Svarið var að það væri hætta á slíku, að það myndi trufla fyrir borgaranum sem að væri að sækja rétt sinn. Þannig að á meðan að sú hætta liggur fyrir þá er beðið með rannsóknina,“ sagði Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata í samtali við mbl.is, strax að loknum fundi. „En tillagan um að fara í rannsóknina liggur ennþá uppi á borði stjórnskipunar og eftirlitsnefndar,“ bætir Jón Þór við. Minnst tveir þeirra fjögurra aðila, sem sérstök dómnefnd taldi hæfa til að gegna stöðu dómara en voru ekki með í tillögum dómsmálaráðherra, ætla í mál gegn ríkinu.

Jón Þór tekur fram, að burt séð frá því hvað muni koma út úr dómsmálum varðandi skipan dómara við Landsrétt, kunni að vera tilefni til að rannsaka verklagið við vinnslu tillögunnar til Alþingis. „Til þess að geta lært af ferlinu, lært af þeim brotalömum sem að klárlega eru í ferlinu,“ segir Jón Þór.

Að svo stöddu verði þó ekki farið af stað með rannsókn vegna mögulegrar hættu á að spilla fyrir dómsmálum þeirra fjögurra aðila sem kunni að leita réttar síns.

„Þeir eru náttúrlega þeir einu sem að geta farið í dómsmálið. Aftur á móti getur verið, ef að þessir fjórir aðilar lýsa því yfir að þeir setji sig ekki á móti því að rannsókn fari fram samhliða, að þá munum við kalla eftir því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd komi aftur saman og meti stöðuna í því ljósi,“ segir Jón Þór. Tillagan sé ennþá uppi á borðinu.

„Allir [í nefndinni sem sátu fundinn] voru sammála um það að hafa hana á borðinu þar til annað hvort dómsmálinu líkur eða eitthvað annað kemur í ljós sem að gefur tilefni til þess að fara strax í rannsóknina, þó að dómsmálið sé enn í gangi,“ segir Jón Þór. „Þá náttúrlega er lykilatriði þar að það trufli ekki fyrir réttindum borgaranna að sækja rétt sinn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert