„Teknir og afhausaðir á samfélagsmiðlum“

Frá réttarhöldum yfir bræðrunum.
Frá réttarhöldum yfir bræðrunum. mbl.is/Golli

Ljóst var við fyrstu skýrslutöku lögreglu af Nabakowski-bræðrum, þeim Marcin og Rafal, að þeir áttu litla sem enga aðild að andláti Arnars Jónssonar Aspar miðvikudagskvöldið 7. júní. Þetta segir verjandi Marcin, Þórður Már Jónsson, í samtali við mbl.is.

Mennirnir voru handteknir af lögreglu miðvikudagskvöldið 7. júní á Vesturlandsvegi, vegna gruns um þeir hefðu banað Arnari Jónssyni Aspar í félagi við fjóra aðra. Fjórum af þeim sex sem settir voru í gæsluvarðhald hefur í dag verið sleppt úr varðhaldinu, þar á meðal bræðrunum tveimur.

Þórður Már segir að þetta hafi lögregla gert í dag vegna þess að ljóst hafi verið að aðkoma þeirra að málinu hafi verið engin.

Frá vettvangi í Mosfellsdal.
Frá vettvangi í Mosfellsdal. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Beðnir um að sækja verkfæri

„Þeir hafa allt að því verið teknir og afhausaðir á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum á köflum,“ segir Þórður, spurður hvort honum finnist umræðan í samfélaginu hafa verið óvægin í garð bræðranna.

„Og það hefur verið erfitt að geta ekki borið hönd fyrir höfuð þeirra, þar sem maður hefur ekki mátt tjá sig nema að takmörkuðu leyti. En það er gott að það sé búið að sleppa þeim og staðfesting á því að þeirra aðild getur ekki verið talin mikil í þessu máli. Það hefur verið ljóst frá fyrstu skýrslutöku.“

Til skýringar á atburðum þessa örlagaríka kvölds segir Þórður að bræðurnir tveir hafi verið við vinnu þegar yfirmaður þeirra, sem enn er í haldi lögreglu grunaður um manndráp, hafi beðið þá um að koma með sér að sækja verkfæri í Mosfellsdalinn, sem síðar reyndist vettvangur atburðanna.

Vildu ekki koma sér í vandræði

„Þeir stoppa þarna 200 metrum fyrir neðan, við veginn, og fylgjast með úr fjarlægð en það var erfitt fyrir þá að sjá hvað væri að gerast. Þá sauð allt upp úr og þeir fá að vita maðurinn liggi þarna látinn. Þá fá þeir áfall þar sem þá grunaði aldrei að þetta gæti farið svona,“ segir Þórður og bætir við að þeir hafi einfaldlega lagt á flótta, þar sem þeir hafi ekki viljað koma sér í frekari vandræði.

Héraðsdómur Reykjavíkur felldi í febrúar dóm yfir bræðrunum þar sem Marcin fékk fangelsisdóm til tveggja ára og sjö mánaða og Rafal var dæmdur í tveggja ára og átta mánaða fangelsi fyrir árásir með byssu annars vegar og ammoníaki hins vegar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert