Huga þarf vel að upplýsingagjöf

Lögreglumenn stóðu vörð á leik Íslands og Króatíu í knattspyrnu …
Lögreglumenn stóðu vörð á leik Íslands og Króatíu í knattspyrnu karla síðustu helgi. mbl.is/Hanna

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, telur að ræða þurfi betur hvar mörkin liggi á milli hlutverks almennrar lögreglu og hlutverks sérsveitar. Þá hafa fulltrúar Pírata í allsherjar- og menntamálanefnd lagt til að kallaðir verði fyrir erlendir sérfræðingar til að ræða málefni í tengslum við vopnaburð lögreglu og upplýsingagjöf hvað það varðar. Starfandi formaður allsherjar- og menntamálanefndar segir að huga þurfi vel að því hvernig almenningur sé upplýstur.

„Þegar þú ert kominn með sérsveitarmenn í hlutverk sem að almennir lögreglumenn sinna; það að standa á götum úti og gæta almenns öryggis, þá má velta fyrir sér hvort að við séum að má út mörkin á milli almennrar löggæslu, sem að við erum öll sammála um að eigi að vera óvopnuð, og sérsveitarmanna sem að hafa þessa sérstöku heimild til þess að vera vopnaðir,“ segir Andrés Ingi í samtali við mbl.is. „Það er eitthvað sem að mér finnst full ástæða til að skoða í framhaldinu og beindi því einmitt til ráðuneytisins að gera það.“

Það var Andrés sem kallaði eftir fundi allsherjar- og menntamálanefndar sem fram fór í morgun þar sem til umræðu var ákvörðun ríkislögreglustjóra um aukna aðkomu vopnaðrar sérsveitar á fjölmennum samkomum í sumar. Fyrir nefndina í dag komu fulltrúar Reykjavíkurborgar, ríkislögreglustjóra, lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og dómsmálaráðuneytis.

„Ég fékk ekki kannski skýr svör við því af hverju vopnuð lögregla var allt í einu komin í framvarðasveit gæslu á stærri viðburðum,“ segir Andrés, spurður um útkomu fundarins. Hann segir það haf komið í ljós á fundinum að samráði við borgaryfirvöld vegna þessa hafi verið ábótavant.

„Ég reikna með því að þessir aðilar sem voru á fundi hjá okkur muni skoða sérstaklega samráð og upplýsingagjöf milli lögreglunnar og borgarinnar, sem að hefur greinilega misfarist,“ segir Andrés. Þá verði í framhaldinu skoðað í víðara samhengi hvernig skuli upplýsa almenning um löggæslumál.

Skoða þarf betur upplýsingagjöf til almennings

„Það þarf að skoða kannski fordæmi frá öðrum löndum þar sem að reynsla af hækkuðu viðbúnaðarstigi er meiri og þar sem að upplýsingagjöf til almennings er kannski komin í fastari skorður,“ segir Andrés. Bendir hann á í því samhengi að aðeins séu liðin tvö ár síðan reglur um vopnaburð urðu aðgengilegar almenningi, það hafi verið stórt skref í rétta átt. „Það er eitthvað sem þarf að stíga næsta skrefið með greinilega til að það komi ekki aftan að fólki að allt í einu séu vopnaðir lögreglumenn í gæslu á svona stærri viðburðum,“ bætir Andrés við.

Nichole  Leigh Mosty, þingmaður Bjartrar framtíðar og formaður nefndarinnar í fjarveru Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, segist hafa lagt sérstaka áherslu á upplýsingagjöf til almennings á fundinum hvað þessi mál varðar. 

„Eitt sem að kom hvað sterkast fram frá mér, og þau tóku undir, er hvernig við upplýsum almenning. Svo að almenningur upplifi ekki óöryggi,“ segir Nichole. „Við munum bara halda áfram að finna bestu leið til þess. Það er líka þannig að við verðum að passa hvernig við upplýsum. Við getum ekki haft fólk hrætt, hrætt við til dæmis ferðamenn eða innflytjendur eða hvað það er,“ bætir hún við. Mikilvægt sé að almenningur beri traust til lögreglunnar sem að fyrst og fremst gegnir því hlutverki að tryggja öryggi almennings.

Loks lagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, fram tillögu á fundinum um að kallaðir verði fyrir erlendir sérfræðingar til að ræða ákvarðanir í tengslum við vopnaburð lögreglu og upplýsingagjöf hvað það varðar. Segir hún tillöguna ekki byggja á nokkurri tortryggni í garð lögreglunnar eða vinnubragða hennar, heldur í þeim tilgangi að varpa betra ljósi á málið og fá álit sérfræðinga frá löndum þar sem lengri og meiri reynsla er til staðar er varðar vopnaburð lögreglu. Þórhildur gerir ráð fyrir að ekki verði þó að því fyrr en í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert