Konan á kassa í Bónus hefur ekki val

Konur koma til með að greiða meira fyrir læknisþjónustu í …
Konur koma til með að greiða meira fyrir læknisþjónustu í nýja kerfinu. mbl.is/Hjörtur

„Ég óttast það að fleiri fresti læknisheimsóknum og þá er kerfið að vinna gegn þeim sem það er ætlað að vinna fyrir. Allt snýr þetta að þessu háa greiðsluþaki. Það getur ekki verið tilgangur með nýju greiðsluþátttökukerfi að fleiri fresti læknisheimsóknum.“ Þetta segir Gunnar Alexander Ólafsson heilsuhagfræðingur sem gagnrýnt hefur nýja greiðsluþátttöku- og tilvísanakerfið í heilbrigðiskerfinu sem tók gildi 1. maí síðastliðinn.

Hann segir nýja kerfið koma verst við konur og þær komi til með að greiða meira fyrir læknisþjónustu en áður. Þá noti þær kerfið meira en karlmenn og kostnaðurinn aukist enn meira fyrir vikið. „Stór hluti kvenna á vinnumarkaði er ekki að ná 500 þúsund krónum á mánuði. Þetta kerfi er ekki að vinna fyrir þær,“ segir Gunnar.

Hann telur nýja kerfið jafnframt allt of flókið og þungt í vöfum og það sé í raun ótrúlegt að tekist hafi að hanna svo flókið kerfi fyrir rúmlega 300 þúsund manna þjóð.

Konur koma verst út úr reikningsdæminu

„Það er tvennt sem vinnur gegn konum í þessum efnum. Annars vegar sú staðreynd að konur eru með minni atvinnuþátttöku en karlar, og þær sem eru með atvinnu eru almennt með lægri laun en karlar. Ef konur nota heilbrigðiskerfið meira og eru jafnframt með lægri laun þá hittir það þær konur verr,“ segir Gunnar og bendir í því samhengi á að greiðsluþakið sé allt of hátt. Í nýja kerfinu er það um 70 þúsund krónur á 12 mánaða tímabili fyrir almenna notendur.

Það hvernig kerfið er uppbyggt gerir það að verkum að kostnaður um 115 þúsund einstaklinga mun aukast frá því sem áður var. 40 þúsund einstaklingar koma til með að greiða minna, en um 110 einstaklingar koma til með að greiða það sama og í gamla kerfinu. Gunnar segir konur koma verst út úr þessu reikningsdæmi, meðal annars af þeim ástæðum tilgreindar eru hér að ofan.

Gunnar vill berjast fyrir því að heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls.
Gunnar vill berjast fyrir því að heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls. Aðsend mynd

Gunnar tekur sem dæmi konu sem fór fimm sinnum til sérfræðilæknis á síðasta ári og þurfti að greiða samtals um 37 þúsund krónur fyrir heimsóknirnar. Í nýja kerfinu þarf hún að greiða 65 þúsund krónur fyrir sömu þjónustu. „í gamla kerfinu var hver heimsókn til sérfræðings niðurgreidd að hluta og afsláttarmörkin lágu við 35 þúsund krónu þak. Í nýja kerfinu fara niðurgreiðslur ríkisins ekki að tikka fyrr en fólk hefur greitt allt að 70 þúsund krónur á ári. Þarna er reginnmunur á,“ segir Gunnar.

Hann bendir á að íslenskar rannsóknir hafi sýnt fram á að fleiri eru að fresta heimsóknum til lækna út af kostnaði og telur víst að sá hópur muni aðeins stækka með nýja kerfinu. „Við erum að auka ójöfnuð í kerfinu. Fyrir þá sem eru með góðar tekjur, á kjararáðslaunum, skipta 70 þúsund krónur engu máli. En fyrir konuna sem starfar á kassanum í Bónus, sem kannski er með 300 þúsund krónur í brúttótekjur, skiptir þetta öllu máli.“

Karlmaður á fertugsaldri draumasjúklingur

Gunnar segir draumasjúklinginn vera karlmann á aldrinum 30 til 40 ára. „Hann kemur ekki til læknis. Það er ekki sama með konurnar. Þær eru á barneignaaldri og þurfa meðal annars að hitta kvensjúkdómalækna. Þetta er einfalt dæmi. Þegar við karlarnir erum orðnir eldri þá fáum við auðvitað ýmsa kvilla, en konurnar fá þá líka. Konurnar verða líka eldri en við karlarnir og sækja því þjónustuna meira og lengur.“

Ef dæmið er skoðað í enn víðara samhengi fara mæður líklega oftar með börn sín til læknis en feður og þar eykst kostnaður í mörgum tilfellum. Kostnaður við heimsóknir barna til sérfræðilækna hefur aukist um allt að 150 til 300 prósent, fyrir þá sem ekki hafa tilvísun frá heimilislækni. Með tilvísun er þjónustan hins vegar gjaldfrjáls. Gunnar bendir á að það hafi ekki allir tök á því að bíða eftir tilvísun.

„Í grunninn er ég hlynntur tilvísanakerfi, en það má aldrei verða íþyngjandi fyrir þá sem ætla að reyna að lækka kostnaðinn vil heilbrigðisþjónustuna. Þess vegna gagnrýni ég tvennt varðandi þetta nýja tilvísanakerfi. Það var ekki sett neitt auka fé til að taka á móti auknum fjölda sem vill fá tilvísun. Staðan er þannig að ef þú ætlar að fá tilvísun þá þarftu að bíða. Fæstir nenna því og greiða einfaldlega hærri kostnað hjá sérfræðilæknum. Ef við tökum aftur konuna á kassanum í Bónus sem dæmi, þá hefur hún ekki þetta val. Fólk með meðaltekjur og yfir hins vegar hefur val. Þarna kemur skýrt fram þessi ójöfnuður sem ég er að benda á.

Hitt sem ég vil benda á varðandi tilvísanakerfið, er að það komið út í algjöra vitleysu. Þú getur til dæmis verið í meðferð hjá sérfræðingi en þarft alltaf tilvísun, jafnvel upp á endurkomur, ef þú vilt fá þjónustuna ókeypis. Það er bara rugl.“

Gunnar telur að fólk, þá sér í lagi konur, muni …
Gunnar telur að fólk, þá sér í lagi konur, muni veigra sér við leita til læknis vegna kostnaðar. Ásdís Ásgeirsdóttir

Gunnar bendir á að þetta samræmist ekki því sem kemur fram í lögum, að aðgengi að heilbrigðisþjónustu skuli vera óháð efnahag. „Þarna erum við að búa til þrep sem getur reynst mörgum erfitt, og jafnvel hindrun að komast yfir. Svo ég tali nú ekki um ef þú þarft meira á þessari þjónustu að halda en aðrir. Svo ég grípi til hagfræðinnar þá er línuleg teygni á milli þeirra sem nota þjónustuna mikið og hafa lágar tekjur. Ég geng því svo langt að segja að þetta kerfi er ekki að þjóna þeim hópi sem notar kerfið mest.“

Hægt að lækka kostnað á auðveldan hátt

Gunnar vill reyndar berjast fyrir því að heilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls, en þangað til það verður raunin segir hann nóg að setja um tvo milljarða aukalega inn í kerfið, til að hægt sé að lækka greiðsluþakið úr 70 þúsund krónum á ári í 40 til 50 þúsund krónur.

„Ég get líka svarað því hvert á að sækja þessa peninga. Það er hægt að fresta lækkun virðisaukaskatts úr 24 prósent í 22,5 prósent. Ég held að flestir væru sáttir við að greiða lægri heilbrigðisþjónustu á móti. Það er miklu meiri jöfnunaraðgerð.“

Að sögn Gunnars gerist það sjaldan að veikur einstaklingur fái bót meina sinna einn, tveir og þrír, án þess að leita til læknis. Sérstaklega ef um fjölþætt vandamál er að ræða, líkt og algengt er í dag.

Gunnar er þó bjartsýnn á að kerfið verði endurskoðað fyrr en síðar. „Heilbrigðisráðherra hefur sagt að hann vilji sjá hvernig kerfið þróast áður en hann fer að leggja til breytingar. Ég ætla að gefa honum það að hann leyfi kerfinu að þróast í tvö ár, áður en hann fer af stað með breytingar. Sporin hræða hins vegar í þessum efnum. Þetta var líka sagt með lyfjagreiðslukerfið. Það átti að endurskoða. Það er hins vegar enn ekki búið að hrinda þeim breytingum í framkvæmd sem þar áttu að fylgja.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert