„Það er mikið traust á lögreglunni“

Lögreglumenn að störfum á Secret Solstice-hátíðinni í gær.
Lögreglumenn að störfum á Secret Solstice-hátíðinni í gær. mbl.is/Eggert

„Þetta var mjög góður fundur sem við áttum með þingmönnum. Við skiptumst á skoðunum og áttum góðar samræður og það kom fram að það er mikið traust á lögreglunni,“ segir Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri í samtali við mbl.is að loknum fundi með allsherjar- og menntamálanefnd. Hann kveðst ekki óttast að ákvörðun um að gera sérstakar ráðstafanir við löggæslu og sýnileika sérsveitar á fjölmennum viðburðum í sumar muni koma niður á trausti almennings í garð lögreglu.

Hvað vilt þú segja við þann hluta almennings sem stendur ekki á sama um þessa ákvörðun, hefurðu engar áhyggjur af því að þetta komi til með að draga úr þessu mikla trausti almennings á lögreglu?

„Ég held að almenningur skilji það að íslenska lögreglan er almennt séð, og vonandi verður hún sem allra lengst, óvopnuð. Hún þarf hins vegar í ákveðnum afmörkuðum tilvikum að geta brugðist við með ákveðnum hætti og eins og ég hef lýst að undanförnu þá er hér um tímabundna ráðstöfun að ræða,“ svarar Haraldur.

Strax eftir verslunarmannahelgi stendur til að endurmeta stöðuna og vonar Haraldur að ekkert framhald verði á slíkum ráðstöfunum. Þá verði málið skoðað ítarlega. „Ég reikna frekar með því, að öllu óbreyttu, að þessi löggæsla sem við höfum haft núna í sumar verði ekki lengur til staðar eftir verslunarmannahelgina,“ segir Haraldur, með þeim fyrirvara að leggja þurfi mat á stöðuna þegar þar að kemur.  

Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri.
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Hættumat greiningardeildar ríkislögreglustjóra hefur verið óbreytt, „í meðallagi“, síðan árið 2015 og viðbúnaðarstig hefur ekki verið hækkað. Margir hafa því velt fyrir sér hvaða rök séu fyrir ákvörðun ríkislögreglustjóra um að hafa vopnaða sérsveitarmenn viðstadda fjölmenna viðburði í sumar.

„Meginrökin eru það hættumat sem greiningardeild ríkislögreglustjóra gerir fyrir lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu og atburðirnir sem hafa átt sér stað í London nýverið, þar sem óðir menn hafa myrt saklausa borgara,“ svarar Haraldur. „Þetta kallar á það að við hugleiðum hvers konar viðbúnað lögreglan vill hafa um þessar stóru útiskemmtanir sem eru hér aðallega á höfuðborgarsvæðinu. Þetta eru varúðarráðstafanir, sem eru eingöngu nú og um þessar stóru hátíðir,“ bætir Haraldur við og ítrekar að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða.

Upplýsingaflæði verði bætt

Spurður nánar um efni fundarins með allsherjar- og menntamálanefnd segir Haraldur að meðal annars hafi það verið rætt hvernig ríkislögreglustjóri geti átt frekara samstarf og samræður við þingið. Segir hann það standa til að taka upp ríkara samstarf og að auka upplýsingaflæði til þingmanna, þau mál verði hugleidd.

Fulltrúar borgaryfirvalda hafa lýst yfir óánægju sinni með skort á upplýsingaflæði til borgarinnar vegna sérstakra ráðstafana við löggæslu á stórum viðburðum í sumar. Borgarstjóri og forseti borgarstjórnar hafa t.a.m. bæði lýst því yfir að þau hafi fyrst heyrt um málið í fjölmiðlum. Spurður um þetta bendir Haraldur á að samkvæmt lögum um lögreglu sé það lögreglustjóri í hverju umdæmi sem annast samskipti við sveitarfélög.

„Það er lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu sem hefur þennan samráðsvettvang og samstarf við borgarstjóra. Ríkislögreglustjóri, sem starfar á landsvísu og starfrækir hina vopnuðu lögreglu, kemur öllum til aðstoðar og er í samstarfi við lögregluliðin um landið og þannig eiga upplýsingar að flæða í gegnum ríkislögreglustjóra, héraðslögreglustjóra og inn í sveitarstjórnirnar,“ útskýrir Haraldur.

Nýlegur bíll sérsveitarinnar ásamt einkennisklæddum sérsveitarmönnum ríkislögreglustjóra.
Nýlegur bíll sérsveitarinnar ásamt einkennisklæddum sérsveitarmönnum ríkislögreglustjóra. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert