Ábendingar varðandi nýtt greiðsluþátttökukerfi

mbl.is/Eggert

Nokkur gagnrýni hefur komið fram á nýtt greiðsluþáttökukerfi sem tók gildi 1. maí, sem þykir ennfremur flókið. Gunn­ar Al­ex­and­er Ólafs­son heilsu­hag­fræðing­ur sagði í samtali við mbl.is í gær, að það gæti ekki verið tilgangurinn með nýju kerfi að fleiri fresti lækn­is­heim­sókn­um.

Unnsteinn Jóhannsson, aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra, hafði samband við mbl.is og vildi koma nokkrum ábendingum á framfæri í tengslum við fyrri frétt. Hann vísar m.a. til ummæla Gunnars sem sagði í fréttinni: „Í nýja kerfinu fara niðurgreiðslur ríkisins ekki að tikka fyrr en fólk hefur greitt allt að 70 þúsund krónur á ári.“

Unnstein bendir á, að kerfið virki þannig að Sjúkratryggingar Íslands (SÍ) greiði 10% af heildarkostnaði vegna heilbrigðisþjónustu sem eigi undir kerfið fyrir almenna notendur þar til hámarksgreiðslu sé náð. Að sama skapi greiði SÍ 40% af heildarkostnaði fyrir aðra notendur, þ.e. lífeyrisþega og börn, þar til hámarksgreiðslu sé náð. 

Hámarksgreiðsla einstaklinga sé 24.600 kr. á mánuði hjá almennum notanda og 16.400 kr. á mánuði hjá lífeyrisþegum. Þegar hámarksgreiðslu sé náð, hvort sem það sé innan mánaðar eða yfir lengra tímabil, greiði einstaklingar ekki meira en 4.100/2.733 kr. á mánuði fyrir heilbrigðisþjónustu sem eigi undir kerfið í næsta almanaksmánuði á eftir. Greiðsluþátttaka SÍ hækki að sama skapi endi greiði þær það sem er umfram.

Þá segir Unnsteinn að vert sé að taka fram, að hámarksgreiðslur einstaklinga í fyrra kerfi hafi ekki verið 35.200 kr., eins og lesi megi má úr greininni, heldur sé það sú upphæð sem einstaklingar þurfi að ná til þess að fá svokallað afsláttarkort sem veitti afslátt af heilbrigðisþjónustu.
 
Hvað varði ábendingar um tilvísanakerfið þá séu nokkur atriði sem mikilvægt sé að hafa í huga.

Nýtt fjármögnunarlíkan fyrir heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu var tekið í gagnið í janúar á þessu ári. Það sé hluti af því að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað. Einnig sé verið að opna tvær heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu á þessum mánuðum sem ættu að vera enn eitt púslið í að styrkja stoðir undir heilsugæslunna og auka aðgengi einstaklinga að heilsugæslunni. Nánar um heilsugæsluna á höfuðborgarsvæðinu.

Ennfremur segir í athugasemd Unnsteins, að það megi lesa úr viðtalinu að tilvísunarkerfið sé fyrir alla aldurshópa og að tilvísanir séu ósveigjanlegar.

Það sé því mikilvægt að benda á að tilvísanakerfið er fyrir börn tveggja til átján ára. Börn yngri en tveggja ára og börn með umönnunarbætur, greiði ekkert fyrir læknisþjónustu og þurfa þar af leiðandi ekki tilvísun. Tilvísanir séu þeim sem þær þurfa að kostnaðarlausu. Einnig sé vert að benda á gildistími tilvísunar geti verið allt að eitt ár og ef um se að ræða börn með langvinna sjúkdóma eða fötlun allt að tíu ár.

Hér má finna spurningar og svör um greiðsluþátttökukerfið

Hér er að finna kynningarmyndbönd um kerfið

Reglugerðir um heilbrigðiskostnað fólks í nýju greiðsluþátttökukerfi

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert