Afar vinsæll Leggjabrjótur

Feðginin Leifur Þorsteinsson og Steinunn Leifsdóttir.
Feðginin Leifur Þorsteinsson og Steinunn Leifsdóttir. Ljósmynd/Leifur Þorsteinsson

Þjóðhátíðarganga Ferðafélags Íslands yfir Leggjabrjót fer fram í 15. sinn á sunnudaginn. Gönguferðin hefur notið mikilla vinsælda allt frá upphafi en 80 manns mættu fyrsta árið, að sögn Leifs Þorsteinssonar, fararstjóra hjá Ferðafélagi Íslands. Hann segist hafa haft litla trú á velgengni þessarar ferðar í upphafi, en dagsferðir Ferðafélagsins áttu erfitt uppdráttar á þessum tíma. Ferðin hafi hins vegar alveg hitt í mark, segir Leifur.

Alla jafna hafa á bilinu 20-40 manns verið með í ferðinni ár frá ári, sama hvernig viðrar. Leifur Þorsteinsson, sem hefur verið fararstjóri ferðarinnar frá upphafi hennar, verður þó ekki í því hlutverki í ár. Er það dóttir hans, Steinunn Leifsdóttir, sem tekur við hlutverki fararstjóra í ferðinni 18. júní næstkomandi. Sú dagsetning er einnig nýbreytni en vanalega er gengið á þjóðhátíðardaginn sjálfan, 17. júní.

Fólk sem sækir í náttúruna

„Ég hef enga sérstaka skýringu á því,“ segir Leifur þegar hann er spurður að því hvað dragi fólk í þessa tilteknu göngu á þjóðhátíðardaginn. Helst er það fólk sem vill komast út úr borginni og njóta sín í fallegri náttúru að sögn Leifs. Steinunn segir að gangan sé einfaldlega skemmtileg en þó krefjandi, en gangan tekur um fimm til sex klukkustundir.

Þau Leifur og Steinunn segja einnig að ferðin þyki spennandi þar sem upphaf og endir ferðarinnar eru tveir mismunandi staðir. Slíkar gönguferðir af þessari lengd eru oft flóknari á eigin vegum og því er þessi ganga svo vinsæl hjá ferðafélaginu.

Gengið er frá Svartagili í Þingvallasveit, inn eftir Öxarárdal, yfir Leggjabrjót og niður að Stórabotni í Botnsdal í Hvalfirði, að því er kemur fram á vefsíðu Ferðafélags Íslands.

Að mati Leifs er mest heillandi þegar hópurinn nær hæsta punkti leiðarinnar. Á góðviðrisdegi sést þá langt til allra átta, m.a. til Heklu og Eyjafjallajökuls, „drottningar og konungs sunnlenskra fjalla,“ segir Leifur. Steinunn segir að það heilli mest að koma niður í Botnsdal, í gróðurinn sem þar er, og sjá Botnssúlur. Heilt yfir segja þau að gönguleiðin sé mikið fyrir augað og algjört jarðfræðiundur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert