„Dýrt fyrir fólk að missa búslóðina“

Gunnar segir mikilvægt að bæta réttarstöðu leigjenda í myglumálum.
Gunnar segir mikilvægt að bæta réttarstöðu leigjenda í myglumálum. Ómar Óskarsson

Það eru alls ekki allir leigjendur, sérstaklega ekki skjólstæðingar Félagsbústaða eða námsmenn á Ásbrú, sem eru í stakk búnir til að fara í dómsmál og kaupa dýrar matsgerðir til að fá úr svona málum skorið.“ Þetta segir Gunnar Ingi Jóhannsson hæstaréttarlögmaður sem flutt hefur nokkur mál fyrir dómi sem tengjast myglu í leiguhúsnæði.

Flest málin snúast um hver á að bera ábyrgð á hreinsun búslóðar í eigu leigutaka. Leigufélögin bera það í flestum tilfellum fyrir sig að myglan hafi myndast á leigutímanum og sé því tilkomin vegna umgengni leigutaka um húsnæðið.

mbl.is greindi í vikunni frá máli konu sem býr í íbúð á vegum Félagsbústaða þar sem mygla hefur komið fram. Konan hefur upplifað vanlíðan í langan tíma og glímir við mikið hárlos. Félagsbústaðir firra sig ábyrgð í málinu og segja að myglan sé tilkomin vegna þess hvernig gengið hefur verið um íbúðina. Hún sér sig nú tilneydda til að reyna að komast úr íbúðinni, sem hefur verið heimilið hennar í þrjú ár.

„Þessi mál snúast ekki um háar fjárhæðir en það er dýrt fyrir fólk að missa búslóðina sína,“ segir Gunnar og bendir á að áðurnefndir hópar séu sérstaklega viðkvæmir hvað þetta varðar.

„Við þurfum að fá fleiri mál sem skýra stöðu leigjenda betur, en ég tel að Hæstiréttur hafi sent þau skilaboð með dómi í september að ábyrgð leigufélaga er mjög mikil þegar kemur að myglu. Leigufélög verða að vera á tánum ef þau vilja ekki að ábyrgðin falli á þau.“

Vann fyrsta myglumálið fyrir Hæstarétti 

Gunnar flutti fyrsta málið fyrir Hæstarétti þar sem dómur féll leigutökum í vil og fallist var á ábyrgð leigusala vegna myglu. Leigufélaginu bar því að greiða skaðabætur vegna vanrækslu. Um var að ræða íbúð á vegum leigufélagsins á Ásbrú, sem leigir námsmönnum íbúðir á lægra verði en á almennum markaði.

mbl.is greindi í gær frá máli konu sem leigir af …
mbl.is greindi í gær frá máli konu sem leigir af Félagsbústöðum og býr við myglu. Sambærilegir myglublettir hafa verið í íbúðum skjólstæðinga Gunnars. Mynd/Guðbjörg Magnúsdóttir

„Leigusalinn á Ásbrú taldi ábyrgðina ekki liggja hjá sér því myglan hefði komið upp á leigutímanum. Íbúðin hefði verið í fínu lagi þegar hún var leigð út,“ segir Gunnar. Dómstólarnir lögðu hins vegar mjög ríka ábyrgð á leigusalann og var það niðurstaða bæði héraðsdóms og Hæstaréttar að fyrirliggjandi vitneskja leigusala um myglu í íbúðum á svæðinu og athugasemd leigutaka við rakaskemmdir, í upphafi leigutímans, hefði átt að gefa leigusala tilefni til að rannsaka það sérstaklega hvort myglusveppur væri í húsinu. „Af því þeir gerðu það ekki, þá voru þeir taldir hafa gerst sekir um vanrækslu og skaðabótaábyrgð lögð á þá.“

 Leigutaka kennt um mygluna

Gunnar er nú lögmaður einstaklings í öðru sambærilegu máli sem tók íbúð á leigu hjá leigufélagi í Reykjanesbæ, sem er með tugi íbúða á sínum snærum.

„Það liggur fyrir að þær íbúðir voru haldnar ýmsum byggingargöllum og það er deilt um hvort þeir skipti einhverju máli. Hann gerði fyrst athugasemdir 2015 og þá var komið og þrifið. Árið 2016 kallaði hann til heilbrigðiseftirlitið sem sagðist ekki geta mælt með því að nokkur maður hefðist við í þessari íbúð, sem hann leigði. Þarna var verulegt vandamál á ferðinni, en rök leigusalans voru að þetta væri bara því að kenna að leigutakinn loftaði ekki út. Þetta væri honum að kenna.“

Dómkvaddur matsmaður komst að þeirri niðurstöðu að orsök myglunnar væri hátt rakastig og að mygla myndaðist í öllum kuldabrúm í íbúðinni. Í öllum kverkum, í hornum og loftum. Sem gerist vegna þess hvernig húsið er byggt og eina leiðin til að sporna við vandamálinu er að hafa glugga alltaf opna, að sögn Gunnars.

„Ef því er haldið fram að leigutaki lofti ekki nógu vel út í húsnæði á vegum leigufélaga, þá er það ákveðið vandamál sem tengist eigninni og ber að upplýsa leigutakann um.“

Þarf að bæta réttarstöðu leigjenda 

Gunnar segir þessi mál mjög erfið að því leytinu að það þarf alltaf að sýna fram á að leigusalinn hafi sýnt af sér saknæma háttsemi. „Það er mjög erfitt að sanna að sveppurinn hafi verið til staðar í upphafi leigutímans eða að leigusali hafi ekki brugðist rétt við. Í húsaleigulögum er svo gerð krafa um góða umgengni af hálfu leigutaka þannig það er spurning hvort það telst til slæmrar umgengni að lofta ekki nógu vel út. Það þarf klárlega að bæta réttarstöðu leigjenda svona málum, enda virðist þetta vera umtalsvert vandamál,“ segir Gunnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert