Fjallgöngugjald dugi á Helgafelli

Feðginin á Helgafelli, Hjörtur Hinriksson og Jóhanna Kristín Hjartardóttir -
Feðginin á Helgafelli, Hjörtur Hinriksson og Jóhanna Kristín Hjartardóttir - mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Óhjákvæmlegt var að hefja gjaldtöku af þeim sem ganga á Helgafell á Snæfellsnesi, enda lá umhverfið undir skemmdum og frá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða fékkst ekki stuðningur til nauðsynlegra úrbóta. Raunar er líklegt í framtíðinni að á stöðum í einkaeigu, þar sem gestanauð er mikil, verði gjaldtaka almenn, enda er það nærtækasta leiðin til að fjármagna framkvæmdir og þjónustu. Þetta segja feðginin Hjörtur Hinriksson og Jóhanna Kristín Hjartardóttir, bændur og landeigendur á Helgafelli, sem í vor byrjuðu að innheimta 400 krónur af hverjum þeim sem gengur á fjallið, en þeir skipta þúsundum á ári hverju.

Borga sjálf fyrir framkvæmdir

Helgafell í Helgafellssveit, skammt frá Stykkishólmi, er enginn venjulegur staður. Um fjallið gildir sú helgisögn að þegar á það er farið í fyrsta sinn, aldrei litið til baka, ekki mælt orð á leiðinni og beðist fyrir í byrgi á fjallinu eigi þrjár óskir viðkomandi að rætast. „Já, ég hef nokkrum sinnum hitt fólk sem segir mér frá óskum sínum sem rættust eftir fjallgöngu. Það dreg ég ekki í efa, en líka hitt að hjá góðu og heiðarlegu fólki ganga hlutirnir oftast upp og draumarnir verða að veruleika,“ segir Jóhanna.

Fyrir fjórum árum fékkst 6,5 milljóna króna styrkur til þess að leggja göngustíg upp á fjallið og koma upp salernisaðstöðu. Í vor þurfti svo að fara aftur í framkvæmdir og meðal annars bera möl ofan í stíginn, sem mikið hafði runnið úr. Það var pakki upp á tvær milljónir sem Helgafellsfólk borgaði sjálft fyrir en ætlar að vega þar á móti með gjaldtökunni. Frá sveitarfélaginu fékkst enginn stuðningur, en í Helgafellssveit eru aðeins 52 íbúar og hefur sveitarsjóður því úr litlu að spila.

Hópar hættu að koma

Hjörtur Hinriksson segist nokkuð bjartsýnn á að gjaldtakan í sumar standi undir útlögðum kostnaði. „Mér finnst tregðan við að borga þetta sanngjarna gjald mikil. Ferðaskrifstofurnar hættu að mestu leyti koma með hópa eftir að við kynntum þessar ráðstafanir og talsmenn þeirra sögðu að aukakostnaður mætti ekki bætast við þegar seldar ferðir. Og þó eru 400 krónur ekki miklir peningar, hvað þá þegar fólk getur fengið þrjár óskir uppfylltar. Það er mikið fyrir lítið,“ segir Hjörtur og hlær.

Jóhanna Kristín segist telja að í náinni framtíð verði gjaldtaka á fjölförnum stöðum almenn. „Mér virðist sem margir séu að skoða möguleikann og á nokkrum stöðum er byrjað að innheimta bílastæðagjöld, fyrir salerni og fleira,“ segir Jóhanna sem sjálf er gjarnan í litla skúrnum við Helgafellið, þar sem fjallgöngugjaldið er innheimt. „Ef við náum í sumar því inn sem framkvæmdir í vor kostuðu okkur erum við sloppin. Þrátt fyrir að við séum hér á vakt tólf tíma á sólarhring getum við ekki heldur reiknað okkur laun. Veitir raunar ekkert af því að ná peningum í sjóð því vegna sívaxandi ferðamannastraums hingað þarf að fara í margvíslegar fleiri úrbætur hér sem kosta sitt,“ segir Jóhanna á Helgafelli.

Helgafell er fjall sem miklar sagnir eru til um og …
Helgafell er fjall sem miklar sagnir eru til um og sé rétt að farið rætast óskir þeirra sem ganga upp á topp þess. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert