Flugstöð rís í Skaftafelli

Flugvöllurinn í Skaftafelli.
Flugvöllurinn í Skaftafelli. Ljósmynd/Jón Grétar Sigurðsson

Í haust mun rísa ný flugstöð í Skaftafelli. Atlantsflug stendur að baki framkvæmdunum en á áætlun er að malbika flugbrautirnar sem nú þegar eru á staðnum auk þess að byggja flugskýli og þjónustumiðstöð á svæðinu.

Atlantsflug hefur keypt 15 hektara svæði í kringum flugvöllinn og hyggst hefja uppbyggingu á svæðinu í haust. Hafa áætlanir þeirra verið samþykktar í deiliskipulagi sem fór í gegn í mars á þessu ári.

Samkvæmt Jóni Grétari Sigurðssyni, framkvæmdarstjóra Atlantsflugs, byrjuðu drög að uppbyggingu á svæðinu árið 2009. Þá hafi þeir horft til framtíðar en ekki gert sér grein fyrir því hversu mikið ferðaþjónustan átti eftir að stækka. „Í upphafi ætluðum við að byggja þarna bara flugskýli fyrir okkar flugvélar og vera með þarna hús með afgreiðslu.“

Nú stendur til að að byggja á svæðinu 200 fermetra afgreiðslurými – sem hefur fengið enska vinnuheitið "Skaftafell Terminal" – til afgreiðslu og móttöku á farþegum. Þar verður aðstaða með snyrtingu auk þess að mögulega verði í húsnæðinu rými fyrir sýningar eða kennslu er við kemur ferðamennsku og fjallamennsku.

Hér má sjá teikningu af flugskýlinu sem opna á í …
Hér má sjá teikningu af flugskýlinu sem opna á í Skaftafelli í haust. Teikning/Hughrif

Auka þjónustu á svæðinu allt árið

Á svæðinu eru alls sex lóðir og eru þrjár hugsaðar fyrir flugskýli. Er tilgangurinn fyrst og fremst að auka þjónustu á svæðinu allt árið um kring. Atlantsflug hefur aðeins getað geymt flugvélar sínar á svæðinu yfir sumartímann eða þrjá til fjóra mánuði á ári. Síðustu ár hafa þau verið að bjóða upp á dagsferðir frá Reykjavík og ekki er síður mikil umferð á veturna en á sumrin. Segir Jón húsnæði vera grunnatriði og gefa nýja möguleika í ferðaþjónustu auk markaðstækifæra á öðrum sviðum.

Löngun þeirra og landeigenda er að malbika flugbrautirnar auk þess að lengja þær um 500 metra. Mun sú breyting opna tækifæri á að stærri flugvélar geti lent á flugvellinum. Eru það þá 19 sæta flugvélar en enn er óljóst hvort hægt verði að lenda þar enn stærri vélum.

Byggja upp þjónustumiðstöð 

Flugvöllurinn er fyrsta áform þeirra en í öðru lagi ætla þau, í samstarfi við landeigendur, að byggja upp þjónustumiðstöð í Skaftafelli. Eru þegar komnir aðilar sem vilja hefja störf þar í haust. Jón lýsir því að áformin séu að mynda eins konar BSÍ á svæðinu og er starfssemin opin öllum þeim sem hafa áhuga á að starfa með þeim. „Það sem háir þessu svæði eins og öðrum er að það er engin aðstaða, menn hafa ekki haft í nein hús að venda“ segir Jón, en með breytingunum vilja þeir opna möguleika á því.

Samkvæmt Jóni er byggingin teiknuð svo að hún komi undir háum mel og falli vel inn í landslagið. Mun hún því hafa lágmarksáhrif á umhverfi og sýnileika á jökla og annað landslag en tekið er skýrt fram í deiliskipulagi að byggingar verði að falla að umhverfinu.

Jón segir þetta „vísi að kjarna fyrir þjónustu á svæðinu, rétt við anddyrið inn í þjóðgarðinn sjálfan.“

Atlantsflug, í samstarfi við landeigendur, hyggst byggja flugstöð auk nýrrar …
Atlantsflug, í samstarfi við landeigendur, hyggst byggja flugstöð auk nýrrar þjónustumiðstöðvar í Skaftafelli. Ljósmynd/Jón Grétar Sigurðsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert