Lokað fyrir „lífæð svæðisins“

Leyfi til að veita vatni úr Skaftá út á Eldhraun …
Leyfi til að veita vatni úr Skaftá út á Eldhraun rann út 15. júní. mbl.is/ÞÖK

„Loka þurfti fyrir eitt rör af þremur og sérveitu sem ég var með og þannig helminga vatnsrennslið út á Eldhraun,“ segir Hörður Davíðsson, sem rekur Hótel Laka í Efri-Vík í Landbroti, en leyfi til að veita vatni úr Skaftá út á Eldhraun rann út 15. júní.

Síðasta sumar opnaði Hörður fyrir tvö rör í stíflugarði sem varnar því að vatn úr Skaftá renni óhindrað út á hraunið en þar var þriðja rörið þegar opið.

„Orkustofnun hefur ekki sýnt vilja til að framlengja leyfið. Stofnunin vill endanlega lausn í málið, ekki tímabundnar aðgerðir.“

Hugmyndin að veita vatni út á Eldhraun úr Skaftá er að sögn Harðar neyðarráðstöfun til að bregðast við neyðarástandi. „Bregðast þurfti strax við til að koma vatnsbúskapnum í Landbroti og Meðallandi í eðlilegt ástand. Hér eru gífurlegir hagsmunir í húfi fyrir íbúa og rekstur en hér er t.d. fiskeldi og hagsmunum veiðileyfishafa stefnt í hættu,“ segir Hörður.

Renni sem að fornu hafa runnið

Breyting á rennsli Skaftár, sem veldur því að ekki rennur vatn út á Eldhraun, kemur til vegna framkvæmda Vegagerðarinnar að sögn Harðar.

„Hér rann áin til forna og þótt hún taki oft breytingum þá hljótum við að gera þá kröfu að fá að veita vatni inn á svæði sem eru sveitinni mikilvæg. Áin hefur verið lífæð svæðisins enda þurfum við, eins og öll önnur svæði landsins, rennandi vatn,“ sagði Hörður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert