Öryggi landsmanna dýrmætt

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra. mbl.is/Kistinn Magnússon

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra kom víða við í hátíðarræðu sinni á Austurvelli á þjóðhátíðardegi Íslendinga. Hann sagði lýðveldið Ísland væri vel heppnað og að Íslendingar hefðu það betra í dag en þeir gerðu á lýðveldisárinu 1944.

Forsætisráðherra var tíðrætt um miklar framfarir sem hafa orðið í samfélaginu á öllum sviðum á þessum 73 árum. Hann benti hins vegar á að vegna mikilla og örra tækniframfara væri framtíðin óráðin og full af tækifærum. Þessi tækifæri þyrfti að nálgast með réttu viðhorfi. Í því samhengi nefndi hann mikilvægi frjálsra viðskipta sem hefði verið drifkraftur framfara í gegnum tíðina.

mbl.is/Kristinn Magnússon

„Getum ekki sætt okkur við stríðsátök“

Þrátt fyrir almenna velsæld er meginboðskapurinn í stjórnmálum um allan heim að heimurinn fari versnandi, að sögn Bjarna því krafa er gerð um að gera sífellt betur. „Við getum ekki sætt okkur við stríðsátök. Við getum ekki setið aðgerðarlaus hjá þegar umhverfisslys eru í uppsiglingu, náttúruhamfarir leggja stór svæði í rúst,“ sagði Bjarni.

Í því samhengi nefndi hann Parísarsáttmálann um loftslagsmál og sameiginlega yfirlýsingu sem Norðurlöndin sendu frá sér þar sem skorað var á Bandaríkjaforseta, Donald Trump, að fella ekki undirritun forvera síns úr gildi. Þrátt fyrir það höfðu Norðurlöndin ekki erindi sem erfiði. 

Bjarni benti á mikilvægi þess að Ísland yrði fyrirmynd fyrir önnur ríki í því að draga úr misskiptingu, auka velferð og velmegun, farsæld og frið.  

Forseti og forsætisráðherra.
Forseti og forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan nýtur trausts

„Ein af frumskyldum stjórnvalda er að tryggja öryggi og varnir lands og þjóðar, að tryggja þjóðaröryggi,“ sagði Bjarni. Varnarsamstarf við vestrænar þjóðir væri þar af leiðandi mikilvægt  til að Íslendingar geti áfram verið herlaus þjóð.  

Hins vegar stæði heimurinn frammi fyrir ógnum af ýmsu tagi, sagði Bjarni. Þar beri einna hæst ótryggt ástand heimsmála meðal annars vegna hryðjuverka.

„Við verðum að varast að hér skapist jarðvegur fyrir hryðjuverk. Við verðum að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að tryggja að við getum áfram verið friðsöm þjóð,“ sagði Bjarni. Í því samhengi nefndi hann mikilvægi lögreglunnar og verkefni hennar sem njóta mikils trausts.

Þegar forsætisráðherra nefndi mikilvægi lögreglunnar mátti heyra í mótmælendum púa.

Íslenskan mikilvæg í tækniheiminum 

„Íslenska verður að vera valkostur í tækniheiminum og við þurfum að byggja upp innviði og efla nýsköpun í máltækni,“ sagði Bjarni og sagði mikilvægt að máltækniáætlun komi til framkvæmda eins fljótt og auðið er. Í næstu viku mun mennta- og menningarmálaráðherra kynna verkáætlun til að koma henni til framkvæmda. 

Íslenskan verður að vera lifandi í daglegum samskiptum og við þurfum að hugsa á íslensku. Þess vegna væri brýnt að fá ungu kynslóðina til að viðhalda íslenskunni en það er á ábyrgð allra Íslendinga, þrátt fyrir góð fyrirheit stjórnvalda eins og byggingu Húss íslenskra fræða myndi hrökkva skammt ef Íslendingar væru ekki duglegir að viðhalda málinu sjálfir, sagði Bjarni. 

Ræðu Bjarna má lesa í heild á vef forsætisráðuneytisins

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert