Smárými fyrir stóran skilding

mbl.is/Sigurður Bogi

Dæmi eru um að fólk greiði allt að 120 þúsund krónur fyrir tveggja manna herbergi auk sameignar, eða 40 þúsund krónur fyrir átta fermetra herbergi. Formaður Samtaka leigjenda segir leigjendur eiga sök að máli, þar sem leigusalar geti leigt herbergin út dýrum dómum á meðan eftirspurnin sé til staðar. Og eftirspurnin er sannarlega til staðar.

Blaðamaður Sunnudagsblaðsins rakst á leiguvef á vegum Ingimundar Þórs Þorsteinssonar, þar sem 16 herbergi eru auglýst til leigu í tveimur húsum, öðru í Kópavogi en hinu í Seljahverfi. Fermetraverðið nemur hátt í 5 þúsund krónum á mánuði, eða tæplega tvöfalt fermetraverð á við íbúðir í sömu póstnúmerum. Öll herbergin eru í útleigu.

Í húsinu í Seljahverfi eru herbergin átta talsins og geta þar verið tíu manns sem deila tveimur baðherbergjum með sturtuaðstöðu, þvottahúsi og eldhúsi. Við Nýbýlaveg í Kópavogi eru herbergin sjö á tveimur hæðum. Baðherbergi eru tvö, sitt á hvorri hæðinni, og einnig er sameiginleg eldhúsaðstaða og þvottaherbergi.

12 fermetrar á 180 þúsund

Í miðbæ Reykjavíkur er hægt að leigja 12 fermetra herbergi með sameiginlegu klósetti á 180 þúsund krónur, eða á 15 þúsund krónur fermetrann, að því er kemur fram í leiguskrá Leigu.is. Í Grafarvogi er 13 fermetra íbúð boðin til leigu á 80 þúsund krónur á mánuði. Í Reykjanesbæ er 15 fermetra íbúð boðin á 80 þúsund krónur.

Ingimundur Þór Þorsteinsson.
Ingimundur Þór Þorsteinsson.

Í síðasta mánuði greindi Morgunblaðið frá því að leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hefði hækkað um 74 prósent frá því í janúar 2011. Þá greindi blaðið jafnframt frá því að 17 prósent fólks byggju í leiguhúsnæði en voru 12 prósent árið 2008.

Myndi sjálfur ekki vilja leigja

Ingimundur játar að leigan sé há í húsunum þar sem herbergi séu leigð út og segist sjálfur leggja hart að sonum sínum að spara og safna sér fyrir eigin húsnæði. Hann segist sjálfur ekki myndu vilja vera á leigumarkaði en mikil þörf sé hins vegar á öllum stærðum af húsnæði.

Vill að heimilið sé öruggt

„Það er mikil eftirspurn eftir herbergjum. Ég kann ekkert annað eðlilegt svar [við leiguverðinu] en að verðið ráðist af framboði og eftirspurn,“ segir Ingimundur Þór. Hann hefur leigt herbergin út núna í á fjórða ár. Hann segir verðið hjá sér hafa haldist óbreytt í tvö ár og segir hann mikinn fjölda fyrirspurna og umsókna berast honum í hvert sinn sem hann auglýsi herbergi til leigu. Flestir leigjendurnir kjósi að vera hjá honum til lengri tíma og tekur hann sem dæmi að 75 prósent þeirra sem leigðu hjá honum í haust séu enn að leigja hjá honum.

Ingimundur tekur fram að þetta sé ekki hans sérgrein, þ.e. útleiga íbúða, heldur sé hann að leigja húsin tímabundið út. „Ég er að breyta húsum og bæta, teikna og þess háttar, og leigi út til að láta þau ekki standa auð á meðan,“ segir hann. „En ég hef lagt mikið upp úr því að sinna fólkinu vel og hafa alla hluti í lagi. Mér finnst ég vera að gera eitthvað. Það er fólk hérna sem þarf einhvern stað til að búa á,“ segir Ingimundur.

Fjölbreytt flóra leigjenda

„Ég hef reynt að taka hingað fjölbreytta flóru. Ég reyni að hafa í bland Íslendinga og útlendinga, konur, karla, unga og eldri. Ég er með öryrkja, flóttamenn frá Rauða krossinum og ungt fólk að hefja líf sitt. Maður kynnist þessu fólki og veit eitthvað sem gengur á í lífi þeirra,“ segir Ingimundur og bætir við að sér beri skylda sem leigusala til að passa upp á að fólki líði eins og heima hjá sér. Að þau hafi samastað þar sem þau finni fyrir öryggi.

Spurður hvort hann viti af mörgum að leigja út stök herbergi segist hann hafa rekist á nokkra. „Það er eitthvað í Hafnarfirði, á þremur stöðum er þetta bara bisness, þar sem einhverju húsnæði er skipt niður í herbergi og sett upp fyrir þetta. Í mínu tilfelli er þetta millibilsástand þar sem ég leigi út herbergin á meðan ég er að vinna í öðrum hlutum og þess háttar,“ segir hann.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert