Víkingaveisla í Hafnarfirði

Hárprúður víkingur svalar þorstanum á Víkingahátíð í Hafnarfirði 2017.
Hárprúður víkingur svalar þorstanum á Víkingahátíð í Hafnarfirði 2017. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Víkingahátíð í Hafnarfirði stendur yfir nú um helgina en þetta er í 22. sinn sem að hátíðin fer fram. Hátíðin fer fram í víkingaþorpinu við Fjörukrána þar sem fjöldinn allur af víkingum hefur leikið listir sínar síðan hátíðin hófst á fimmtudag.

Víkingamarkaðir, víkingaskóli barnanna, bardagasýningar og bogfimi eru meðal þeirra dagskrárliða sem hátíðin hefur upp á að bjóða en dagskrá hátíðarinnar líkur með lokaathöfn að hætti víkinga og sannkallaðri víkingaveislu annað kvöld.

mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Auk innlendra víkinga sótti einnig hópur erlendra víkinga hátíðina heim en í hópi þeirra er að finna sögumenn, götulistamenn, hljómlistamenn og handverksmenn sem meðal annars höggva í steina og tré og berja glóandi járn. Þá leika einhverjir þeirra á munngígju og sýna bardagalistir og bogfimi svo fátt eitt sé nefnt.

Í ávarpi sem fylgir dagskrá hátíðarinnar segir að búist sé við að á þriðja hundrað víkingar verði á svæðinu þegar mest lætur en kynnir hátíðarinnar er Víkingur Kristjánsson leikari.

„Það er von mín að þessi hátíð eigi eftir að halda uppi merki víkinga og halda áfram að gleðja þá gesti sem á hátíðina koma,“ segir Jóhannes Viðar Bjarnason framkvæmdastjóri Fjörukrárinnar í ávarpinu.

mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert