„Vorum með mjög sýnilega löggæslu“

Lögregla að störfum í Reykjavík í dag 17. júní.
Lögregla að störfum í Reykjavík í dag 17. júní. mbl.is/Kristinn Magnússon

Svipað margir lögregluþjónar stóðu vaktina við hátíðarhöld á Austurvelli í morgun líkt og undanfarin ár, jafnvel aðeins færri en í fyrra. Mikið var þó lagt upp úr allri löggæslu á höfuðborgarsvæðinu og var lögregla sýnileg á öllum þeim stöðum í borginni þar sem fram fór skipulögð dagskrá vegna 17. júní. Hátíðarhöld hafa gengið vel fyrir sig og engar meiriháttar uppákomur hafa orðið í dag að sögn yfirlögregluþjóns.

Færri lögreglumenn á Austurvelli en í fyrra

„Þetta var bara mjög hefðbundið og eiginlega nákvæmlega sami fjöldi á Austurvelli í morgun og hefur verið undanfarin ár,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, um þann fjölda lögreglumanna sem staðið hefur vaktina í dag. Aftur á móti hafi lögreglumenn verið um það bil 10 færri sem stóðu vaktina á Austurvelli í morgun heldur en í fyrra. Í heildina ætlar Ásgeir að um 40-50 lögreglumenn hafi staðið vaktina í dag.

Líkt og fram hefur komið verður lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóri með aukinn viðbúnað á fjölmennum hátíðum á höfuðborgarsvæðinu í sumar. Segir Ásgeir að í dag hafi lögreglu gengið vel að vinna í takt við þetta strangara fyrirkomulag. „Við vorum með mjög sýnilega löggæslu í raun og veru á öllum þeim samkomustöðum sem að voru auglýstir í borginni,“ segir Ásgeir.

Lögregla stendur vörð er forsætisráðherra flytur ávarp.
Lögregla stendur vörð er forsætisráðherra flytur ávarp. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Eftir hádegi og þangað til hátíðarhöldum lauk þá lögðum við mun meira í gæsluna. Frá klukkan tólf til sex eða sjö þá lögðum við mun meira í heldur en undanfarin ár en það var heldur minna í morgun,“ bætir hann við. Störfum lögreglu er þó hvergi lokið í dag. „Svo heldur partýið áfram af því að nú streyma allir í Laugardalinn á Secret Solstice,“ segir Ásgeir. Þá muni lögregla eins og vera ber halda áfram að standa vaktina.

Lokuðu götum að tilmælum lögreglu

Stór­ir bíl­ar, rút­ur og vöru­bíl­ar, voru notaðir víðsveg­ar um borg­ina í dag til að koma í veg fyr­ir að hægt væri að keyra inn á hátíðarsvæði á meðan skipu­lögð dag­skrá fór fram. Það var meðal annars gert á Rútstúni í Kópavogi en að sögn lögregluvarðstjóra var þeim lokunum aflétt þegar dagskrá lauk.

„Það var náttúrlega bara farið fram á það við bæjaryfirvöld hérna á höfuðborgarsvæðinu að þau myndu hafa þetta í huga, og grípa til einhverra ráðstafana til að hindra aðgang, og það var hérna í Hafnarfirði og Kópavogi og Garðabæ og víðar,“ segir Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni í Kópavogi.

 „Undanfarinn mánuð höfum við verið að ræða við sveitarfélögin hérna á höfuðborgarsvæðinu um að við þyrftum að gæta betur að öryggi vegfarenda inn á hátíðarsvæðunum og þau tóku okkur bara á orðinu,“ segir Ásgeir. „Sveitarfélögin tóku þetta bara í sínar hendur og eru búin að vera með mjög metnaðarfulla vinnu í samstarfi við lögregluna með þetta. En framkvæmdin hefur algjörlega verið á herðum sveitarfélaganna og þau hafa unnið þetta að miklum metnaði.“

Spurður segir Ásgeir tilganginn með þessu vera að tryggja öryggi vegfarenda, einkum gangandi vegfarenda til að draga úr hvers konar ógn við öryggi þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert