Telur Íslendinga ekki vera á svæðinu

Skjálftinn fannst ekki í Nuuk, höfuðborg Grænlands.
Skjálftinn fannst ekki í Nuuk, höfuðborg Grænlands. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Pétur Ásgeirsson, aðalræðismaður Íslands í Nuuk í Grænlandi, segist ekki vita til þess að nokkrir Íslendingar séu búsettir eða hafi verið staddir á þeim svæðum í Vestur-Grænlandi þar sem jarðskjálfti og flóðbylgja urðu í gærkvöldi.

Sjálfur hafði Pétur lítið heyrt annað en það sem fram hefur komið í fjölmiðlum um skjálftan sem ekki fannst í Nuuk, enda er höfuðborgin í um það bil 1.500 kílómetra fjarlægð frá svæðinu að sögn Péturs.

„Ég held að þetta sé aðallega bundið við Uu­mann­aq-fjörðinn, það reyndar var líka talað um flóðbylgju í nágrenni við Upernavik, sem að er um 130 kílómetra fyrir norðan,“ segir Pétur í samtali við mbl.is. Sjálfur hefur Pétur ekki heyrt nokkuð um meiðsl á fólki, annað en það sem fram hefur komið í fjölmiðlum, þegar mbl.is ræddi við hann.  

Líklega merki frá jökli

Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands fannst skjálftinn ekki á mælum Veðurstofunnar en unnið er að því að afla frekari upplýsinga um hvað átti sér stað á Grænlandi.

„Ég sé ekki neinn skjálfta sem hefur mælst hjá okkur á þessum tíma þannig að hann hefur ekki verið það stór að hann hafi sést hér,“ segir Sigurlaug Hjaltadóttir, sérfræðingur í jarðskjálftarannsóknum hjá Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is. Það eru Danir sem annast jarðskjálftamælingar í Grænlandi en þeir reka fjórar jarðskjálftastöðvar um landið.

„Mér finnst líklegast að skjálftinn, sem varð við vesturströnd Grænlands í nótt/gærkvöld, séu merki frá jökli að kelfa í sjó fram,“ segir Sigurlaug. „Ef við skoðum kort sem sýnir dreifingu jarðskjálfta á Grænlandi sést að þeir sem mælst hafa eru nær allir við strendur landsins,“ bætir hún við. Það bendi til þess að a.m.k. einhverjir þeirra gætu verið merki frá jöklinum.

„Ég hef ekki trú á að jarðskjálfti af stærð 4 (sem verður þá í jarðskorpunni sjálfri) valdi slíku flóði, heldur hafi kelfingin valdið flóðinu, og skjálftamerkinu sem mældist. Ég sé ekkert á okkar mælum á þessum tíma. Mér skilst að kelfing jökuls geti gefið frá sér bylgjur að útslagi sem samsvari skjálfta að stærð allt að 5,“ segir Sigurlaug.

Hún kveðst þó ekki hafa fengið það staðfest að þetta hafi verið raunin í Grænlandi í gærkvöld en bendir á að dæmi þekkist um svo stóra skjálfta við strönd Grænlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert